Glamúr, kraftur og dansgleði hjá Íslenska dansflokknum

Thursday, 26. April 2018

Íslenski dansflokkurinn frumsýnir Hin lánsömu á föstudaginn 27. Apríl, splunkunýtt dansverk eftir Grímuverðlaunahafann Anton Lachky.

Hin lánsömu er kraftmikil og kómísk saga 8 systkina sem lifa velmegunarlífi. Með því að fylgja settum reglum er þeim tryggt að líf þeirra sé hamingjuríkt og gæfusamt. Mundir þú fylgja hvaða reglu sem er ef það mundi tryggja hamingju þína og lánsemi? Sérstaklega ef ein reglan bannar þér að yfirgefa húsið þitt.

Anton Lachky hefur notið gífurlegrar velgengni sem danshöfundur undanfarin ár en hann hefur meðal annars samið fyrir Borgarleikhúsið í Helsinki, Theater St-Gallen, Gautaborgarballettinn, Scottish Dance Theatre, ásamt því að hafa samið fyrir Feneyjartvíæringinn.

Haustið 2011 samdi hann verkið Fullkominn dagur til drauma sem sýnt var á Stóra sviði Borgarleikhússins. Fyrir það verk vann hann, ásamt dönsurum Íd, Grímuverðlaun 2012 í flokknum Danshöfundur ársins.

Það verða einungis 5 sýningar í boði á verkinu Hin lánsömu en önnur sýningin verður núna á sunnudaginn 29. Apríl á Alþjóðlega dansdeginum. Í tilefni dagsins mun Íd bjóða upp á sérstaka sýningu á Hin lánsömu sem byrjar kl 20 með upplestri á boðskapi dansdagsins, en fengnir hafa verið velkunnir íslenskir danslistamenn til að lesa upp ávörp dagsins.

Við tekur sýning á hinni kraftmiklu og kómísku sýningu Hin lánsömu eftir Anton Lachky og að lokum verður boðið upp á listamannaspjall með dönsurum Íd og listdansstjóra en Ásgerður Gunnarsdóttir mun leiða spjallið.

Frekari upplýsingar fást hjá Írisi Maríu Stefánsdóttur, markaðsstjóra Íslenska dansflokksins í iris@id.is eða í síma 6619591.

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is