Alþjóðlegi dansdagurinn 29.apríl Tjáningarformi dansins fagnað

Thursday, 26. April 2018

Alþjóðlegi dansdagurinn er næstkomandi sunnudag en hann var stofnaður árið 1982 af dansdeild Alþjóðlegu leikhúsmálastofnunar UNESCO - ITI. Dagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert þann 29.apríl um heim allan. Dagsetningin er til minningar um fæðingardag Jean-Georges Noverre, sem fæddist árið 1727 en Noverre var mikill dansumbótasinni og hafði víðtæk áhrif á þróun danslistar í Evrópu á sínum tíma. Markmið Alþjóðlega dansdagsins er að yfirstíga pólitískar, menningarlegar og siðfræðilegar hindranir og færa fólk nær hvert öðru í friði og vináttu með sameinginlegu tungumáli – dansinum.

Samtök dansara, dansflokkar, listdansskólar og leikhússtofnanir um heim allan minnast dagsins með ýmsum hætti en danslistinni verður einnig gert hátt undir höfði hérlendis næstkomandi sunnudag, á Alþjóðlega dansdaginn. Það er mikill kraftur í íslensku listdanssamfélagi þessa dagana. Má þar nefna að Vorblót Tjarnarbíós er nýafstaðið en þar voru sýnd hvorki meira né minna en 8 íslensk samtímadansverk. Á sunnudaginn verður barnadansverkið Fjaðrafok til sýninga í Tjarnarbíó kl.12:30 og 15:00 en sú sýning er frábær upplifun fyrir áhorfendur frá 18 mánaða aldri og því tilvalin sýning fyrir barnafólk sem vill lyfta sér upp og fagna degi dansins. Dansinn verður í aðalhlutverki víða næstkomandi sunnudag en dansarar munu yfirtaka Stóra svið Borgarleikhússins frá hádegi auk þess sem dansað verður í beinni útsendingu á Stöð 2 þegar keppendur í þættinum Allir geta dansað sýna listir sínar.

Í Borgarleikhúsinu hefst dagskrá dansdagsins með vorsýningum Listdansskóla Íslands en þær verða tvær, sú fyrri kl.12:00 og sú síðari kl.15:00. Íslenski dansflokkurinn tekur síðan við sviðinu um kvöldið með sérstakri sýningu á verkinu Hin lánsömu eftir Anton Lachky. Dagskrá Dansflokksins hefst kl.20 á upplestri á boðskapi Alþjóðlega dansdagsins en í tilefni af 70 ára afmæli Alþjóðlegu leikhúsmálastofnunar Unesco – ITI hafa 5 heimsþekktir danslistarmenn, frá mismunandi heimshlutum, verið fengnir til að ávarpa heimsbyggðina með orðsendingu um mikilvægi danslistarinnar í samtímanum. Skilaboð danslistarmannanna Willy TSao, Salia Sanou, Ohad Naharin, Marianela Boán og Georgette Gebara verða lesin upp af þekktum íslenskum danslistarmönnum m.a. Ernu Ómarsdóttur listdansstjóra Íd, Irmu Gunnarsdóttur formanni FÍLD og Guðmundi Helgasyni skólastjóra Listdansskóla Íslands. Við tekur sýning á hinni kraftmiklu og kómísku sýningu Hin lánsömu eftir Anton Lachky. Í lok sýningarinnar verður boðið uppá listamannaspjall með dönsurum Íd og listdansstjóra en Ásgerður Gunnarsdóttir mun leiða spjallið. Í tilefni dansdagsins býðst fólki að kaupa miða á þessa sérstöku sýningu Dansflokksins á einungis 3500 kr.(almennt miðaverð er 5500 kr.).

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is