Horfið

Thursday, 1. March 2018

Gjörningurinn Horfið eftir Elísabetu Birtu Sveinsdóttur með tónlist í samstarfi við Ísabellu Katarínu Márusdóttur verður fluttur á Ráðstefnu í Ríga á Föstudaginn 2. mars 2018. Ráðstefnan ber titilinn: Practicing Communities: Transformative societal strategies of artistic research og er haldin í Zirgu Pasts, Latvian Academy of Culture.

Elísabet Birta flutti brot úr verkinu á A queer ballroom for the hot bodies of the future á Everybody's Spectacular í Iðnó í október sl. en verkið í fullri lengd sýndi hún í Mengi í desember 2017.

„Ég þrái að vera eins og fugl, villtur og frjáls sem fylgir innsæi sínu. Ég þrái að vera eins og fiskur, villtur og nakinn í sjónum. Ég þrái að vera eins og hundur, villtur, hlýr og næmur. Ég bý í heimi sem ég hef búið til í kringum sjálfa mig, heimi þar sem ég sjálf er undirtylla.“

Verkið er á mörkum þess að vera myndlist, dans eða tónleikar og fjallar um hlutgervingu kvenlíkamans líkt og dýra í neyslusamfélagi samtímans, verkið byggist á yfirdrifinni tilvistarkreppu og uppgjöf gagnvart mannskepnunni. Endurtekning og þráhyggja í verkinu sem birtist í gjörðum flytjandans snýst um sjálfsmeiðingu í vítahring kapitalismans. Persónan er sértekning eða abstraktisering á göllum manneskjunnar í nútímanum, hún er gagnrýnin en einnig sek, lifir og tekur þátt í umhverfi sem hún skapaði utan um sig sjálfa sem er að kúga hana.

Elísabet Birta Sveinsdóttir er dans- og myndlistarkona, búsett í Reykjavík. Í gjörningaverkum hennar renna á áhrifamikinn hátt saman myndlist, tónlist og sviðshreyfingar þar sem hún hefur undanfarin ár unnið mikið með birtingarmyndir kvenlíkamans, hvernig kvenleikinn er meðhöndlaður, kvenlíkaminn hlutgerður eins og dýr í neyslusamfélagi nútímans. Elísabet Birta útskrifaðist með BA-gráðu í samtímadansi frá Listaháskóla Íslands árið 2013 og BA-gráðu í myndlist frá sama skóla árið 2017. 

 

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is