Ballettsólókeppnin Stora Daldansen

Tuesday, 14. March 2017

Þrír nemendur Listdansskóla Íslands taka þátt í ballettsólókeppninni Stora Daldansen – Nordic Baltic Ballet Competition

Dagana 16.-18. mars er haldin Norræn- /Eystrasalts-ballettsólókeppni í Falun í Svíþjóð þar sem saman koma bestu nemendur þessara landa til að keppa í ballett.

Ísland hefur sent nemendur í þessa keppni um árabil og best náð þriðja sæti þegar Ellen Margrét Bæhrenz tók þátt árið 2010 og 2014 þegar Helga Krisín Ingólfsdóttir vann áhorfendaverðlaunin. Keppendur eru á bilinu 35-40 og þar á meðal nemendur sem hafa náð miklum árangri í keppnum sem þessum. Samkeppnin er því gríðarlega hörð um sætin 15 í úrslitum en hvernig sem fer þá er keppni sem þessi virkilega góð og dýrmæt reynsla fyrir þá nemendur sem fara út.

Fulltrúar Íslands í þetta landslið í ballett voru valdir í undankeppni á vegum Félags íslenskra listdansara sem haldin var í október síðastliðinn. Þær eru Hrefna Kristrún Jónasdóttir, Íris Ásmundardóttir og Sesselja Borg Snævarr Þórðardóttir allar nemendur við Listdansskóla Íslands. Eftir undankeppnina íslensku tóku við æfingar á bæði klassískum og nútímadanssóló en þeir voru samdir sérstaklega fyrir stelpurnar af Guðmundi Helgasyni og Hildi Ólafsdóttur. Birgitte Heide hefur haft veg og vanda af þjálfun klassísku sólóanna. Auk þess hafa stelpurnar hitt íþróttasálfræðinginn Hafrúnu Kristjánsdóttur til að undirbúa andlegu hliðina en hún hefur meðal annars unnið með mörgum ólympíuförum okkar.

Auk keppenda, skólastjóra og kennara fara nokkrir aðstandendur með til Svíþjóðar alls tíu manns í hópnum.

Þátttaka í þessari keppni gefur nemendum færi á að bera sig saman við þá bestu á norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum og sama hvernig fer þá taka þær með sér heim verðmæta reynslu sem mun vafalaust nýtast þeim í framtíðinni. 

Frekari upplýsingar veitir:
Guðmundur Helgason, skólastjóri Listdansskóla Íslands
mummi@listdans.is
GSM 695 4271

Heimasíða keppninnar: www.storadaldansen.se

Ljósmynd frá vinstri: Íris Ásmundardóttir, Hrefna Kristrún Jónasdóttir, Sesselja Borg Snævarr Þórðardóttir og Birgitte Heide. (Ljósmynd tók Guðmundur Helgason)

 

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is