Námskeið með Báru Sigfúsdóttur

Dagana 2. og 3. apríl mun danshöfundurinn og dansarinn Bára Sigfúsdóttir halda námskeið í spuna fyrir dansara og leikara í Frystiklefanum á Rifi. Námskeiðið er ÓKEYPIS, en mikilvægt er að skráning berist á netfangið kari@frystiklefinn.is fyrir 31. mars næstkomandi.

Nánari upplýsingar: https://www.facebook.com/events/376148349245012/

Thursday, 26. March 2015

Frumsýning THE LOVER á Performatik

Frumsýning THE LOVER á Performatik

Bára Sigfúsdóttir mun frumflytja sólódansverkið THE LOVER á Performatik festival næstkomandi 27. og 28. Mars. THE LOVER er um samband mannsins og náttúrunnar - hvernig maðurinn eyðir náttúrunni og náttúran eyðir manninum. Tónlist og hljóðmynd er samin af íslenska tónlistamanninum Borko og sviðsmyndin sem er lifandi innsetning er unnin af Noémie Goudal og 88888.

Performatik er haldin annað hvert ár í Brussel. Hátíðin leitast eftir að sýna tilraunakennd verk þar sem hinum hefðubundna ramma sviðslistanna er ögrað og ýtt er undir tengingar við myndlist. Útkoman er lifandi viðburður, fundur áhorfanda og flytjenda, hér og nú.

Meðal annarra listamanna sem sýna á hátíðinni má nefna Önnu Teresu de Keersmaeker, Jonathan Burrows, Philippe Gemacher og Ivo Dimchev.

Wednesday, 25. March 2015

Vatnið

Vatnið
Fellur að ofan,
Sameinast,
Rennur til hafsins,
Gufar upp,
og rignir svo aftur niður.
Við erum dropi í hafið.
Og hafið er ekkert nema dropar.

Í dansverkinu „Vatnið" sem verður frumsýnt þann 28 mars í Tjarnarbíó , eru notaðar hinar ýmsu birtingamyndir vatns og hringrás þess sem innblástur fyrir dans, tónlist, vídeólist svo úr verður nýstárleg leikhúsupplifun. Sjónarspil sem dregur áhorfandann inní heim vatnsins og leyfir honum að túlka það á sinn eigin hátt og finna þannig sína tengingu við vatnið.

Vatn er eitthvað sem við þekkjum öll en er í senn hverfult og síbreytilegt. Við tökum því sem sjálfsögðum hlut án þess að gera okkur endilega grein fyrir mikilvægi þess í lífi okkar, en það er okkur lífsnauðsynlegt. Vatnið er alltumlykjandi, í umhverfinu okkar og inní okkur. 71% af flatarmáli jarðar er þakið vatni. Meira en helmingur af mannslíkamanum er vatn. Í tilraun til að skilja það, og í leiðinni okkur sjálf, skoðum við vatnið í hreyfingu, mynd og hljóði og uppgötvum nýja nánd við vökva lífsins.

Höfundar verksins eru Þóra Rós Guðbjartsdóttir, Leifur Eiriksson og Nicholas Fishleigh. Þau vonast til að geta tekið þátt í að þróa listaumhverfi íslands með því að skapa verk sem er óhefðbundið en byggt á traustum stoðum núverandi listforma

Danshöfundar og flytjendur eru þau: Nicholas Fishleigh og Þóra Rós Guðbjartsdóttir.
Hljóð, tónlist, texti og video: Leifur Eiríksson.

Miðasala í Tjarnarbíó og á midi.is

Monday, 23. March 2015

Embætti listdansstjóra laust til umsóknar

Embætti listdansstjóra Íslenska dansflokksins er laust til umsóknar. Hlutverk Íslenska dansflokksins er að sýna listdans, stuðla að nýsköpun í innlendri listdanssmíði og vera að öðru leyti vettvangur til að efla og þróa danslist á Íslandi.

Listdansstjóri er forstöðumaður Íslenska dansflokksins. Listdansstjóri veitir dansflokknum listræna forystu og mótar listræna stefnu hans í samráði við stjórn. Listdansstjóri ber jafnframt ábyrgð á daglegum rekstri dansflokksins og reikniskilum sbr. nánar reglur um starfsemi dansflokksins 14/2002.

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar listdansstjóra til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglna um starfsemi Íslenska dansflokksins, nr. 14/2002 og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum. Í embætti listdansstjóra skal skipaður einstaklingur sem hefur staðgóða þekkingu og reynslu á sviði listdans. Jafnframt er æskilegt að hann hafi menntun á því sviði. Leitað er eftir einstaklingi með stjórnunarreynslu, sem býr yfir leiðtoga- og samskiptahæfni og hefur reynslu af stefnumótunarvinnu og hæfileika til nýsköpunar.

Gert er ráð fyrir því að skipað verði í embættið frá og með 1. júlí 2015.

Um laun listdansstjóra fer eftir ákvörðun kjararáðs, sbr. lög um kjararáð, nr. 47/2006 með síðari breytingum, sbr. 39. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

Umsóknir með ítarlegum upplýsingum um menntun og starfsferil sendist mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík, eða á postur@mrn.is.

Umsókn skal jafnframt fylgja greinargerð um hugmyndir umsækjanda er varðar framtíðarsýn hans á starfsemi Íslenska dansflokksins. Nánari upplýsingar veitir Jens Pétur Hjaltested.

Umsóknarfrestur er til og með 30. mars 2015.

Sunday, 22. March 2015

Stora Daldansen – Nordic Baltic Ballet Competition

Þrír nemendur Listdansskóla Íslands taka þátt í ballettsólókeppninni Stora Daldansen – Nordic Baltic Ballet Competition

Dagana 12.-14. mars er haldin Norræn- /Eystrasalts-ballettsólókeppni í Falun í Svíþjóð þar sem saman koma bestu nemendur þessara landa til að keppa í ballett. Ísland hefur sent nemendur í þessa keppni um árabil og best náð þriðja sæti þegar Ellen Margrét Bæhrenz tók þátt árið 2010 og í fyrra þegar Helga Krisín Ingólfsdóttir vann áhorfendaverðlaunin. Í ár eru keppendur 40 og þar á meðal nemendur sem hafa náð miklum árangri í keppnum sem þessum. Samkeppnin er því gríðarlega hörð um sætin 15 í úrslitum en hvernig sem fer þá er keppni sem þessi virkilega góð og dýrmæt reynsla fyrir þá nemendur sem fara út.

Wednesday, 11. March 2015

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is