NÁLÆGÐ – Lókal 2014

Lókal – alþjóðleg leiklistarhátíð verður haldin í 7. sinn dagana 27. -31. ágúst n.k. Í þetta sinn einbeitir hátíðin sér að samskiptum innanbúðarmanna- og kvenna í íslensku samfélagi; afmörkuðum áhyggjum þeirra af ástinni, fjölskyldu,innilokunarkennd, túrisma og leigumarkaði. Sjónum okkar verður beint að því sem gengur á í okkar ástkæra, agnarsmáa ríki og reynt að draga upp lifandi mynd af þessu samfélagi sem við fáum framan í okkur á hverjum degi, eins og blauta tusku.

Tuesday, 19. August 2014

Bára Sigfúsdóttir

Dansarinn og danshöfundurinn Bára Sigfúsdóttir dvelur þessa dagana í gestavinnustofu hjá Dansens Hus í Stokkhólmi við vinnslu á nýju sólóverki. Verkið verður frumsýnt á Performatik Festival í Beursschouwburg Brussel þann 27. og 28. mars næstkomandi. Verkið er unnið í samvinnu við Noémie Goudal ljósmyndara sem hannar sviðsmynd, en tónlistin verður frumsamin af íslenska tónlistarmanninum Borko.

Sunday, 17. August 2014

KEÐJA á Álandseyjum

Dagana 7.-9. ágúst var dansfundurinn Keðja haldin hátíðleg í Mariehamn á Álandseyjum. Þar voru samankomnir margir helstu fagaðilar dansgeirans bæði frá Íslandi, Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Fyrirlestrar, danssýningar, danstímar og ýmsar aðrar uppákomur skipuðu þétta stundaskrá, allt með því sameiginlega markmiði að stuðla að frekari uppbyggingu samtímadansins, þróa tenglsanet milli ríkjanna og auðga starfsmöguleikana í okkar ástkæru starfsgrein.

Keðja hefur verið haldin frá því 2008 en samkoman einkenndist af miklum drifkrafti og innblæstri meðal þátttakenda.

Næsta Keðja verður haldin í Hammerfest, Noregi í byrjun Október 2015.

Thursday, 14. August 2014

Erna Ómarsdóttir nýr listrænn ráðgjafi Íslenska dansflokksins

Erna Ómarsdóttir hefur verið ráðin listrænn ráðgjafi Íslenska dansflokksins fyrir leikárið 2014-2015. Erna er einn virtasti dansari og danshöfundur Íslendinga og hefur unnið með nokkrum fremstu dans- og sviðlistahópum Evrópu. Erna hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín sem listamaður, þar á meðal fimm Grímuverðlaun, Menningarverðlaun DV, verið valin heiðurslistamaður Kópavogsbæjar og verið nefnd sem efnilegasti dansari, danshöfundur og besti dansarinn af einu helsta danstímariti heims, Ballet Tanz.

Thursday, 14. August 2014

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is