Stora Daldansen

Fjórir nemendur Listdansskóla Íslands taka þátt í ballettsólókeppninni Stora Daldansen

Dagana 20.-22. mars er haldin Norræn- /Eystrasalts-ballettsólókeppni í Falun í Svíþjóð þar sem saman koma bestu nemendur þessara landa til að keppa í ballett.

Ísland hefur sent nemendur í þessa keppni um árabil og best náð þriðja sæti þegar Ellen Margrét Bæhrenz tók þátt árið 2010. Í ár eru keppendur 36 og þar á meðal nemendur sem hafa náð miklum árangri í keppnum sem þessum.

Fulltrúar Íslands voru valdir í undankeppni á vegum Félags íslenskra listdansara sem haldin var 9. febrúar síðastliðinn. Þær eru Birta Thorarensen, Helga Kristín Ingólfsdóttir, Kristín Marja Ómarsdóttir og Sara Þrastardóttir allar nemendur við Listdansskóla Íslands. Síðustu árin hafa þrír fulltrúar verið sendir í keppnina en þar sem mjög mjótt var á milli þriðja og fjórða sætis að þessu sinni var ákveðið bæta við einum keppanda eftir hvatningu dómnefndar.

Þátttaka í þessari keppni gefur nemendum færi á að bera sig saman við þá bestu á norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum og sama hvernig fer þá taka þær með sér heim verðmæta reynslu sem mun vafalaust nýtast þeim í framtíðinni.

Thursday, 20. March 2014

Menningarverðlaun DV

Tvö dansverk hlutu menningarverðlaun DV í ár - Sigríður Soffía Níelsdóttir hlaut verðlaunin í flokki danslistar fyrir verkið Eldar og Brogan Davison og Ármann Reynisson hlutu áhorfendaverðlaunin fyrir verkið Dansaðu fyrir mig. Geri aðrir betur!

Wednesday, 12. March 2014

Puz/zle tilnefnt til Oliver leiklistarverðlaunanna sem besta dansverk ársins.

Puz/zle tilnefnt til Oliver leiklistarverðlaunanna sem besta dansverk ársins.

Bresku leiklistarverðlaunin, Oliver Awards, verða haldin hátíðlega þann 13. apríl næstkomandi í Konunglega óperuhúsinu í London. Þar verða veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi störf á sviði leikhúss, dans og óperu í bresku leikhúsi.

Sýningin Puz/zle eftir danshöfundinn Sidi Larbi Cherkaoui er ein þriggja sýninga sem hlýtur tilnefningu sem besta danssýning ársins. Verkið var frumsýnt á Avignon sviðslistahátíðinni í Frakklandi sumarið 2012 og hefur ferðast víða um heim síðan. Valgerður Rúnarsdóttir dansari og danshöfundur dansar í sýningunni og tók þátt í að skapa verkið ásamt hópi listamanna undir handleiðslu Sidi Larbi. Hún hefur starfað með honum í fimm uppfærslum undanfarin sex ár, sýnt verk hans víða um heim og hlaupa sýningarnar nú á hundruðum.

Monday, 10. March 2014

Kvennasóló

Fimm danshöfundar, fimm dansarar, fimm tónskáld og fimm hljóðfæraleikarar, allt konur, leiða saman hesta sína á tónleikum 15:15 tónleikasyrpunnar í Norræna húsinu sunnudaginn 9. mars næstkomandi.

Verkin sem flutt verða eru einleiksverk og verður frumsýndur sólódans við hvert þeirra. Sýningin hefst í anddyri hússins og síðan verða áhorfendur leiddir frá einu verki til annars í gegnum húsið, en ferðalagið endar svo aftur á upphafsstaðnum. Sýning þessi er haldin í tilefni af 8. mars, alþjóðlegum baráttudegi kvenna og er markmiðið með henni að fagna tjáningarfrelsinu og því sem áunnist hefur í baráttu kvenna fyrir jafnrétti.

Friday, 7. March 2014

Dansverkstæðið

Næstu 2 vikur kemur Tómas Oddur Eiríksson á Dansverkstæðið til að kenna okkur morguntíma.

þriðjudagur 4. mars
YOGA

fimmtudagur 6. mars
YOGA

þriðjudagur 11. marsY
OGA

fimmtudagur 13. mars
YOGA

Tómas Oddur Eiríksson kynntist yoga árið 2005 og hefur stundað reglulega ashtanga yoga iðkun síðan 2009 og verið kennari hjá Yoga Shala síðan maí 2012. Hann hefur einnig kennt dönsurum yoga á Dansverkstæðinu, hjá Íslenska Dansflokknum og við Listaháskóla Íslands.

Hann nam yoga hjá Ingibjörgu Stefánsdóttur, Lawino María Johnson, Julie Martin, Ryan Leier og fl. Tómas hefur einnig sótt fjölmörg námskeið og vinnustofur í gegnum tíðina á Íslandi og erlendis sem tengjast yoga, dansi, leiklist, söng og samskiptum.

Að vanda eru tímarnir ókeypis fyrir okkar félagsmenn og einungis kostar 1000 kr fyrir aðra.

Wednesday, 5. March 2014

Aðeins 2 sýningar eftir - Íslenski dansflokkurinn

Breik, street, samtímadans & tónlistarveisla í Borgarleikhúsinu!

Þríleikur Íslenska dansflokksins, aðeins 2 sýningar eftir, 2. og 9.mars.
Tryggðu þér miða í síma 568 8000 eða á midasala@borgarleikhus.is.
Komdu & njóttu!

Í gagnrýni Sesselju G. Magnúsdóttur í Fréttablaðinu 27.febrúar segir m.a;

"Þar má fyrsta nefna Hjördísi Lilju Örnólfsdóttur sem nú fer með aðalkvenhlutverk verksins. Hún var greinilega rétta manneskjan í hlutverkið og lýsti af öryggi, krafti, nákvæmni og snerpu. Í dansi Brians Gerke, ekki síst í sólóinu, mátti merkja áreynsluleysi og dansgleði sem skilaði sér vel til áhorfenda."

Um verkið Berserkir eftir Lene Boel.

"Þar verður að nefna frammistöðu Snædísar Lilju Ingadóttur sem sýnir mikil tilþrif, jafnt í dansi, leikrænum tilbrigðum og ekki síst í söng og skemmtilega takta Brians Gerke."

Um verkið F A R A N G U R eftir Valgerði Rúnarsdóttur.

Sunday, 2. March 2014

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is