Frá Brasilíu í Borgarleikhúsið

Friday, 6. December 2013

Valgerður Rúnarsdóttir danshöfundur og dansari skapar nýtt dansverk fyrir Íslenska dansflokkinn, verkið F A R A N G U R. Æfingar eru nú hafnar, en verkið er samið sérstaklega fyrir dansara dansflokksins og í samvinnu við þá. Innblástur að sköpunarferlinu er sóttur í minnið og stöðuga mótun þess, hvernig við erum stöðugt að safna í og vinna úr efni í hinu huglæga farangursrými. Tónlistin í verkinu er eftir tónskáldið Daníel Bjarnason. Dansarar í verkinu eru þau Aðalheiður Halldórsdóttir, Brian Gerke, Einar Anton Sörli Nikkerud, Halla Þórðardóttir, Hjördís Lilja Örnólfsdóttir og Snædís Ingadóttir.

Valgerður hefur komið víða við á sínum ferli sem danshöfundur og dansari, hlaut m.a. Grímuverðlaun fyrir verk sitt Eyjaskegg árið 2011 og hefur á undanförnum árum unnið með einum fremsta danshöfundi heims, Sidi Larbi Cherkaoui. Hún hefur tekið þátt í að skapa og sýna verk hans auk þess að taka þátt í kvikmyndum og óperuuppfærslum. Hún er nýkomin hingað til lands úr sýningaferð til Brasilíu til að vinna með Íslenska dansflokknum. Eins er gaman frá því að segja að Valgerður starfaði sem dansari í Íslenska dansflokknum í ein fimm ár áður en hún fór utan.

Dansverkið F A R A N G U R verður frumsýnt af Íslenska dansflokknum þann 31.janúar næstkomandi á stóra sviði Borgarleikhússins.

 

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is