Stjórnarskrá danslýðveldisins Íslands kunngjörð

Stjórnarskrá danslýðveldisins Íslands var kunngjörð í Víðsjá föstudaginn 26. nóvember s.l.. Í henni er meðal annars kveðið á um að allir hafi aðgang að dansi, óháð kyni, kynhneigð, litarhætti, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum eða búsetu. Karen María Jónsdóttir reifaði nýja Dansstefnu 10/20 í þættinum sem felur í sér aðgerðaráætlun upp á 69 liði en aðgerðaráætlunin er til næstu tíu ára.

Tuesday, 30. November 2010

Íslensk dansstefna kynnt á Norðurlöndunum

Íslenskum danslistamönnum hefur verið boðið að sitja í norrum panel á IceHot ráðstefninni í Stokkhólmi föstudaginn 3. desember n.k. Þar verða m.a. norrænar dansstefnur ræddar og möguleikinn á samstarfi við uppbyggingu á innviðum listdansins, þvert á Norðurlöndin.

Monday, 29. November 2010

Trilltur dans á degi Rauða nefsins!

Það eru átta íþróttamenn sem leggja munu íþróttaskóna á hilluna á næstunni til að taka upp dansskóna og dansa á degi Rauða nefsins. Undir traustri handleiðslu danslistamannsins Peter Anderson æfa þeir danssporin sem ekki verða ólík þeim sem sjá mátti í þættinum ameríska raunveruleikaþættinum So You Think You Can Dance sem landsmenn ættu allir að þekkja frá því síðastliðin sumur.

Sunday, 28. November 2010

Steinunn og Brian á IceHot í Stokkhólmi

Tvíeykið Steinunn og Brian sýna á IceHot Nordic Dance Platform þann 2. desember nk. Voru þau valin úr hópi 200 umsækjanda til þess að sýna á hátíðinni. Hátíðin er samvinnuverkefni nokkurra dansstofnanna á Norðurlöndunum og vettvangur fyrir norrænan samtímadans.

Saturday, 27. November 2010

Kasper Ravnhoj kennir í Dansverkstæðinu í næstu viku

Kasper er leikari að mennt, danshöfundur og listrænn stjórnandi Mute Comp. Physical Theatre í Kaupmannahöfn.
Tímarnir munu byggja á repertoire frá Mute Company, upphitun, gólfvinnu og áherslu á að finna sitt eigið flæði.

Friday, 26. November 2010

Verk Margrétar Söru hlýtur góða dóma

Í síðastliðnum mánuði var dansverkið „Soft Target“, eftir Margrétar Söru Guðjónsdóttur/Panic Productions, sýnt í Leikhúsinu Ballhaus Ost í Berlín. Verkið var sýnt við góðar undirtektir og hlaut einnig stórgóða dóma í þýska internet danstímaritinu Tanz Presse.

Thursday, 25. November 2010

Jólasýning Listdansbrautar Listdansskóla Íslands 30.nóv 2010

Glæsileg og metnaðarfull jólasýning Listdansbrautar Listdansskóla Íslands verður í íslensku Óperunni 30.nóv 2010 kl. 18 00 og 20 00.
Tónlistin eftir Tchaikovsky, Hnotubrjóturinn, gleður huga og hjarta og kemur öllum í jólaskap. Það er ekki á hverjum degi sem áhorfendur eiga þess kost að sjá svífandi upprennandi ballerínur á táskóm á sviði, dansandi við klassíska tónlist.

Wednesday, 24. November 2010

Sigríður Soffía samdi danshreyfingar fyrir Vodafone

Sigríður Soffía Níelsdóttir hefur nýlokið vinnu við auglýsingar fyrir Vodafone Gull en leikstjóri myndbandsins er Reynir Lyngdal. Sigríður Soffía sá um danshreyfingar en dansarar eru þau Ellen Margrét Bæhrenz, Aðalheiður Halldórsdóttir, Haki Lorenzen og Hannes Þór Egilsson.

Tuesday, 23. November 2010

Dansstefna 10/20

Í tilefni af útgáfu Dansstefnu 10/20 var haldið útgáfuteiti þann 13. nóvember sl. í húsakynnum Dansverkstæðisins. Dansstefna 10/20 hefur verið í mótun frá því í apríl sl. með beinni aðkomu fagaðila danssamfélagsins í gegnum stefnumótunarfundi sem haldnir voru á vordögum í apríl og maí.

Monday, 22. November 2010

Réttarhöldin

Katrín Gunnarsdóttir er höfundur sviðshreyfinga í nýjasta verki stúdentaleikhússins, Réttarhöldunum eftir Franz Kafka í leikstjórn Friðgeirs Einarssonar. Verkið var frumsýnt þann 13. nóvember í leikhúsinu Norðurpólnum á Seltjarnarnesi og verður sýnt þar áfram í nóvember

Sunday, 21. November 2010

Raven á Interferencias í Mexico

Hrafnhildi Einarsdóttur danslistamanni hefur verið boðið á Interferencias alþjóðlegan fund um dans og sviðslist í Mexico, 19. nóv. til 12. des. Hátíðin/fundurinn á sér stað bæði í San Luis Potosi og Mexico City, þar sem um 20 listamenn hvaðanæva úr heiminum hittast í þrjár vikur og vinna að samvinnuverkefni sem verður flutt fyrir almenning í Mexico.

Saturday, 20. November 2010

Dansað í Wagner.....

Dansarinn og danshöfundurinn Valgerður Rúnarsdóttir hefur á undanförnum árum starfað með belgísk/marakóska danshöfundinum Sidi Larbi Cherkaoui sem er einn af virtustu danshöfundum Evrópu.
Valgerður tók nýlega þátt í uppfærslu í Berlín á Rheingold úr Niflungahring Wagners þar sem Cherkaoui sá um danshönnun.

Friday, 19. November 2010

On Misunderstanding

Margrét Bjarnadóttir danshöfundur lýkur senn 8 mánaða vinnustofudvöl í K3 - Zentrum für Choreographie - Tanzplan Hamburg sem hefur aðsetur í Kampnagel leikhúsinu í Hamborg.

Thursday, 18. November 2010

Nýliðun hjá Íslenska dansflokknum

Dansararnir Ásgeir Helgi Magnússon og Sigríður Soffía Níelsdóttir hafa í haust dansað með Íslenska dansflokknum í verkinu Transaquania – Into thin air eftir Ernu Ómarsdóttur, Damien Jalet og Gabríelu Friðriksdóttur.

Wednesday, 17. November 2010

Topplið kennara í þjálfunartímum Dansverkstæðis

Innan skamms munu hefjast þjálfunartímar fyrir danslistamenn á morgnana en fyrstu tímarnir verða vikuna 22. - 26. nóvember næstkomandi. Meðal kennara í þjálfunartímum á næstu vikum verða Kasper Ravnhöj frá Mute company í Danmörku og danshöfundurinn Mammu Rankanen frá Finnlandi, það verður hinsvegar hinn nýsjálenski Tony Vezich sem mun ríða á vaðið.

Tuesday, 16. November 2010

Ásgeir dansar á PUNCH danshátíðinni í Amsterdam

Ásgeir Helgi Magnússon dansaði í verkinu IOVIODIO eftir ítalska danshöfundinn Gabríellu Maiorino á danshátíðinni PUNCH! í Amsterdam í síðustu viku. Verkið var frumsýnt í Melkweg Theater í Amsterdam í febrúar á þessu ári. Verkið er að stórum hluta byggt á spuna og fer Ásgeir með eitt aðalhlutverkanna í verkinu.

Monday, 15. November 2010

Kundalini Yoga

Yoga námskeið undir handleiðslu Unnar Elísabetar Gunnarsdóttur dansara og Yogakennara. Námskeiðið er haldið í Listdansskóla Íslands, Engjateig 1 á mánudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.15-21.30 og í hádeginu á miðvikudögum klukkan 12-13. Skráning er í síma 691-6380 og unnsadans@hotmail.com.

Sunday, 14. November 2010

Kynjaverur Transaquaniu kveðja í bili en gætu sést fyrir utan landsteinana

Sunnudaginn 14. nóvember verður lokasýning hjá Íslenska dansflokknum á „Transaquania – Into thin Air“. Verkið er sjálfstætt framhald af „Transaquania - Out of the Blue“ sem dansflokkurinn sýndi í Bláa Lóninu árið 2009 og var valin sýning ársins af gagnrýnendum Morgunblaðsins.

Saturday, 13. November 2010

Katla sýnir með Sirkus Íslands í Tjarnarbíói

Katla Þórarinsdóttir og Lee Nelson setja upp sýninguna Sirkus Sóley með Sirkus Íslands sem hluti af fjölskyldudögum í Tjarnarbíói 14. og 21. nóvember.
Sýningin var sett upp í Salnum í Kópavogi og Hofi á Akureyri fyrr á árinu við stórkostlegar undirtektir áhorfenda og gagnrýnenda.

Friday, 12. November 2010

Blússandi starfsemi í Dansverkstæðinu

Starfsemi Dansverkstæðis í Reykjavík er í blússandi gangi þrátt fyrir að aðeins sé liðinn rúmur mánuður frá opnun þann 2. október s.l. Tveir hópar hafa þegar hafið æfingar í Dansverkstæðinu. Hreyfiþróunarsamsteypan og Lab Loki voru mætt í æfingagallanum innan fárra daga frá opnun verkstæðisins og bera þessi skjótu viðbrögð vott um það að húsnæðisins hafi verið beðið með nokkurri eftirvæntingu.

Thursday, 11. November 2010

Ördansahátíð í netheimum

Ördansahátíð 2010 verður haldin 14. nóvember kl. 17.00. Ördansahátíð hefur hingað til farið ótroðnar slóðir í formi og miðlun ördansverka og að þessu sinni er fésbókin, Facebook, vettvangur hátíðarinnar. Lífslistamenn af öllu tagi eru boðnir velkomnir til þátttöku í Ördansahátíð, eina skilyrðið er að viðkomandi hafi fésbókarsíðu.

Wednesday, 10. November 2010

Íslenskur dansari í erlendri dansmynd

Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, dansari leikur í nýjustu kvikmynd danshöfundarins Wim Vandekeybus.
Myndin er hluti af sýningunni Monkey Sandwich, en þar blandar Vandekeybus saman sviðsforminu og hvíta tjaldinu á heillandi og myndrænan hátt.
Verkið sem var frumsýnt í september á þessu ári, hefur fengið einstaklega góðar viðtökur í heimalandi sínu, og er nú á ferðalagi um Evrópu.

Tuesday, 9. November 2010

Hrafnhildur kemur fram í Chelsea Theatre og vinnur með Kiru O’Reilly

Hrafnhildur Benediktsdóttir hefur nýlokið við sýningu á verkinu ‘How 2 Become 1’ eftir Lauren Barri Holstein. Sýningin var hluti af Sacred Festivalinu, sem er árleg leikhúshátíð í hinu framsækna Chelsea Theatre.

Hrafnhildur kemur einnig fram 8. og 9. Nóvember í verkinu Untitled (Syncopations for more bodies). Verkið er eftir Kiru O’Reilly, sem er í senn afar umdeild og virt performanslistakona í Bretlandi.

Monday, 8. November 2010

Óperan í Hannover fær tilnefningar til Faust verðlaunanna

Dansverkið "Hættuleg kynni" eftir Jörg Mannes hefur verið tilnefnt til Faust, þýsku leikhúsverðlaunanna. Verðlaunin eru veitt árlega sem hvatning og viðurkenning á ýmsum sviðum leiklistarinnar, danslistarinnar og óperu. Í ár hefur Staastsoper Hannover fengið tilnefningar í báðum flokkum danslistarinnar; fyrir kóreografíu fyrir verkið "Hættuleg kynni" og Denis Piza fyrir dans og túlkun sína á hlutverki Valmont í sýningunni.

Sunday, 7. November 2010

Dansinn Dunar á Unglist

Dansinn dunar nú sem aldrei fyrr.. Þverskurður af sköpunarkrafti og dansgleði ungra dansara Reykjarvíkur.
Hip Hop, breik, modern, funk, jazz, contemporary, klassík og allt þar á milli
Laugardaginn 6. nóvember mun dansinn taka yfirráðin í Tjarnarbíó þar sem dansdagskrá Unglistar fer fram.

Saturday, 6. November 2010

Kandíland

Íslenska Hreyfiþróunarsamsteypan vinnur nú að Kandílandi, nýju íslensku dansverki með söngívafi en frumsýnt verður í Kassanum 30. desember.

Sýningin er unnin upp úr konungaverkum William Shakespeare og rannsakar valdaþörf manneskjunnar með líkamann að vopni. Líkamleg togstreita, reipitog, hártoganir og dramatísk örþrifaráð. Valdið skiptir um hendur og fætur í þessari framsæknu og fersku sýningu.

Wednesday, 3. November 2010

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is