Inntökuprufur í Spiral Dansflokkinn

Spiral dansflokkurinn hefur verið starfræktur frá árinu 2006 og sett upp fjölda verka sem vakið hafa verðskuldaða athygli.

Spiral dansflokkurinn leitar eftir að fá flotta, skapandi og áhugasama dansara/sviðlistamenn til liðs við flokkinn starfsárið 2010/2011. Leitað er að einstaklingum með ólíkan bakgrunn og þjálfun í dansi með áherslu á styrkleika hvers og eins.

Thursday, 28. October 2010

Halla Ólafsdóttir dansar í Orena tankar

Halla Ólafsdóttir dansari og danshöfundur dansar nú í verki sænska danshöfundarins Dorte Olesen, Orena tankar. Verkið var frumsýnd um miðjan október og ferðast nú á milli allra helstu borga og leikhúsa í Svíþjóð. Í verkinu Orena tankar er áhorfandinn tekinn með í ævintýralegt ferðalag um skúmaskot undirmeðvitundarinnar. Í verkinu tekst höfundur ásamt fimm dönsurum á við hug hins fullorðna einstaklings og berst með kjafti og klóm til að verja rétt sinn til frjálsrar hugsunnar og stórra tilfinninga.

Tuesday, 26. October 2010

Nýr framkvæmdarstjóri hjá Íslenska dansflokknum

Sigrún Lilja Guðbjartsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdarstjóri Íslenska dansflokksins. Sigrún Lilja er 42 ára hagfræðingur með Cand. Merc gráðu frá Viðskiptaháskólanum í Árósum.

Monday, 25. October 2010

Religion // Release í Kiosk

Íslenskur listdans heldur innreið sinni áfram inn í íslenska kvikmyndagerð. Núna var það stuttmyndin Religion // Rlease sem frumsýnd var þriðju vikuna í október s.l. í tilefni opnunnar Kiosk í Reykjavík. Meðal dansara í myndinni voru þær Halla Þórðardóttir, Díana Rut Kristinsdóttir, Elín Signý Ragnarsdóttir og Bergþóra Einarsdóttir

Sunday, 24. October 2010

Nemandi dansbrautar Listaháskólans með verk í Danshúsinu í Kaupmannahöfn

Þriðja árs nemandi dansbrautar Listaháskólans Lea Petersen sýnir dagana 28-30. október verkið Fremkaldte Billeder í gömlu Carlsberg bjórverksmiðjunni sem nú hýsir hið nýja Danshúsið í Kaupmannahöfn. Verkið er hluti af fimm verka dansveislu en auk Fremkaldte Billeder verða sýnd verk fjögurra annara ungra listamanna sem allir vinna með mismunandi tjáningarform þ.e. dans, leiklist og performans.

Friday, 22. October 2010

Dansstuttmyndin Between valin á Cinedance Festival

Dansstuttmynd Maríu Þórdísar Ólafsdóttur Between hefur verið boðið á sterkustu dansmyndahátíð Evrópu, Cinedance Festival í Amsterdam, sem haldið verður dagana 9-12 desember n.k. Myndin fjallar um hvað það er þunn lína á milli alls, milli raunveruleikans og draums, á milli sturlunar og þess að vera heill. Um hvernig við reynum að halda jafnvægi á þessari línu en missum stöðugt jafnvægið.

Wednesday, 20. October 2010

Haust rabb Íslenska dansfræðafélagsins

Haust rabb Íslenska dansfræðafélagsins verður haldið þriðjudaginn 19. október kl. 20:30 í húsnæði Listdansskóla Íslands.

Erna Ómarsdóttir mun koma og segja frá störfum sínu og svara spurningum áheyranda.

Tuesday, 19. October 2010

Íslandsfrumsýning á dansverkinu Colorblind

Dansverkið Colorblind verður frumsýnt í Tjarnarbíó fimmtudaginn 21. október kl. 20 en verkið er eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur og var samið fyrir dansara Silesian Dance Theatre. Jóhann Friðgeir Jóhannsson semur tónlistina og Ingibjörg Sigurjónsdóttir sá um leikmynd og búninga. Sama kvöld verður verkið Singletrack eftir Jacek ?umi?ski flutt af dönsurum Íslenska dansflokksins.

Monday, 18. October 2010

Vinnusmiðja fyrir dansara og fatlaða

Í tilefni af komu Silesian Dance Theatre til Íslands verður haldin vinnusmiðja í Tjarnarbíó fyrir dansara og fatlaða þriðjudaginn 19. október og miðvikudaginn 20. október milli kl. 10-15 báða dagana. Þessi vinnusmiðja er hluti af „outreach” prógrammi hins svokallaða Dance Bridge, sem er samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins, Sjálfstæðu leikhúsanna og Silesian Dance Theatre frá Póllandi.

Sunday, 17. October 2010

Spjall með höfundum Transaquania - Into Thin Air eftir sýninguna 17. október

Þann 7. október frumsýndi Íslenski dansflokkurinn sýninguna Transaquania – Into thin Air. Tveir af höfundum verksins, danshöfundurinn Erna Ómarsdóttir og myndlistakonan Gabríela Friðriksdóttir, munu spjalla við áhorfendur að sýningu lokinni sunnudaginn 17. Október.

Friday, 15. October 2010

Dansinn nær 1000 titlum!

Bókasafn Listaháskóla Íslands hefur á síðustu 5 árum verið að byggja upp bókakost sinn á sviði danslistarinnar. Núna má nálgast yfir 500 titla sem lúta beint að listdansi á safni skólans en auk þess er dansinn hluti af stærri greinasöfnum sviðslista sem og tímaritum sem einnig má finna í safni skólans. Samanlagður fjöldi titla er núna kominn yfir 1000 og er fjöldi nýrra bóka væntanlegur með vetrinum.

Thursday, 14. October 2010

Hrafnhildur í Hayward Galleríinu

Hrafnhildur Benediktsdóttir hefur nú lokið mastersnámi við hinn virta danslistaháskóla Laban í London. Í náminu hefur hún lagt áherslu á performanslist og starfað með listamönnum á borð við Franko B, Kira O’Reilly og Lea Anderson.

Wednesday, 13. October 2010

“Systur” fulltrúi Íslands á alþjóðlegri hátíð í Suður-Kóreu

Danssýningin Systur eftir þær Ástrós Gunnarsdóttur, Láru Stefánsdóttur og Hrafnhildi Hagalín, tekur þátt í einni stærstu danshátíð heims, Seoul International Dance Festival (SIDance) í Seoul í Suður-Kóreu í næstu viku.

Tuesday, 12. October 2010

Teach Us To Outgrow Our Madness í Norðurpólnum

Verkið tekur á öfgafullum samskiptum kvenna sem lifa í mikilli nálægð, hvort sem er systra, nunna, norna eða kvenna innan fjölkvænissamfélaga. Samkeppni þeirra á milli, leynd, slúður og grimmd en einnig kærleikur, tilfinningalegir fjötrar og skilyrðislaus ást eru hluti þeirra birtingarmynda sem áhorfendur upplifa. Verkið sameinar dans, lifandi tónlistarflutning og sagnahefðina en í uppsetningunni taka þátt fimm dansarar frá Íslandi, Noregi og Svíþjóð auk tveggja tónlistarmanna frá Íslandi og Belgíu.

Saturday, 9. October 2010

“Gættu að dansinum – John Ashford spyr þjóðþekkta íslenska listamenn spjörunum úr”

Í þessari málstofu mun íslenskir listamenn sem sýna verk sín á Keðju - Dance Encounters svara spurningum Johns Ashford og Keðju þátttakenda. Listamennirnir eru: Gabríela Friðriksdóttir, Jón Páll Eyjólfsson, Steinunn Ketilsdóttir, Steinunn Knútsdóttir, Leifur Þór Þorvaldsson, Vilborg Ólafsdóttir og Saga Sigurðardóttir

Saturday, 9. October 2010

“ Hver verður listamaður framtíðarinnar?”

Sunnudagur 10. október kl 9 - 11 í Tjarnarbíói
Málstofa undir stjórn Dr. Dragan Klaic
“ Hver verður listamaður framtíðarinnar?”

Fyrirlesarar: Ragnheiður Skúladóttir, deildarforseti dans- og leiklistardeildar Listaháskóla Íslands og Joost Rekveld, yfirmaður Art&Science deildarinnar í konunglegu listaakademíunni í Haag í Hollandi.

Saturday, 9. October 2010

Ódauðlegt verk um samhengið hlutanna – Áhugaleikhús atvinnumanna

Verkið er hluti af fimm verka röð ódauðlegra leikverka um hegðun og eðli mannsins og er annað í röðinni. Verkið notar senu úr Dauðadansinum eftir Strindberg til þess að skoða merkingu orð og athafna. Verkið leiðir líkur að því að engin orð né athafnir öðlist merkingu nema í því samhengi þar sem þau falla. Textinn er endurtekinn í sífellu þar sem skipt er út breytum ss. kyni, aldri staðsetning í rými oþh. án þess að leikarinn geri nokkra tilraun til túlkunar á textanum.

Saturday, 9. October 2010

“ Hugsað upphátt – erum við búin að ná því?”

Laugardaginn, 9. október kl. 14 – 15 í Tjarnarbíói.
Málstofa undir stjórn Unu Þorleifsdóttir, aðjúnkt við LHÍ.
Fjögur stutt innlegg um stöðu sviðlista í dag – umræður á eftir.

“Thinking out-loud: Are we there yet?

Saturday, 9. October 2010

Superhero!

Varagloss og push-up brjóstahaldarar. Megrunarkúrar og áfengi. Reykja sígarettur og fara í ljós. Þetta og fleira er viðfangsefni danssýningarinnar Superhero eftir danshöfundinn Steinunni Ketilsdóttir. Verkið var frumsýnt á Reykjavík Dance Festival haustið 2009 og hlaut frábærar viðtökur. Superhero hlaut Grímuna - íslensku leiklistarverðlaunin fyrir besta danshöfundinn og besta dansarann árið 2010.

Friday, 8. October 2010

Heilabrot – Histerískur kabarett

Heilabrot er stefnumót við fjóra einstaklinga þegar raunveruleiki þeirra og óraunveruleiki rekast á. Með átökum og samvinnu skapa þau histerískan, ofsafenginn atburð sem snýst um sjálfan sig og fléttast inn og út úr fókus. Kabarett Jesú Krists mætir glamúr stílista, ýkt tilfinningalegt ástand persónanna eykst og þau skjóta á hvort annað.

Friday, 8. October 2010

“Free my body, save my soul” - Fyrirlestur á Keðju Reykjavík

Laugardaginn 9. október klukkan 13:30 mun hinn heimsþekkti danshöfundur Rui Horta flytja fyrirlesturinn Free my body, save my soul" í Tjarnarbíói. Rui Horta er meðal þekktustu danshöfunda Evrópu. Á árum áður starfaði hann í Bandaríkjunum og Þýskalandi þar sem dansflokkar hans S.O.A.P. og Rui Horta Stageworks voru með bækistöðvar megnið af níunda ártugnum. Báðir dansflokkar sýndu verk hans víða um heim.

Thursday, 7. October 2010

It's denfinitely the spiritual thing

Gleymdu öllu því sem þú veist um minimalisma og góðan smekk. Í verkinu, It´s definitely the spiritual thing, segjum við já við nýrri skilgreiningu á lúxus; sem felst ekki í því sem þú sérð heldur í því sem þú upplifir. Í verkinu, It´s definitely the spiritual thing, er unnið með þætti úr dægurmenningu og þeir settir í samhengi danssýningar. Þar sem dansinn vinnur ekki að því að skapa tákn heldur vinnur með afleiðingar breyttrar skynjunar.

Thursday, 7. October 2010

Framsetning líkamans - Shíta

Shíta - er hugsaður á landamærum líkama, tungumáls, texta, stafrænna miðla, umhverfis og þeirra gjörða er þar gerast – líkama er beitt og er í viðræðum um ferli sem leiðir af sér breyttni sem samsvarar umhverfinu/rýminu hverju sinni - með líkmlegri frásögn, myndefni, hljóði, texta, staðsetningu o.s.frv.
Verkið er hluti af Keðju - Dance Encounters, "Happenings in the City" og er sýnt á Fríkirkjuvegi 11, laugardaginn 9. október klukkan 15:30-18:00

Thursday, 7. October 2010

Steinunn and Brian DO Art: How to be Original

“Hverjum er treystandi, hver er trúanlegur, og hvernig ákveðum við það? Áhorfandinn kemur inn í rými sem í fyrstu virðist venjulegt en valið. Hann er staddur, bókstaflega, í miðju brjálæðislegrar rannsóknarstofu þar sem Steinunn og Brian rannsaka „list“ með því nota texta, dans, tónlist, myndlist og meira. Þau ljúga, stela, framleiða, skapa, fæða og leika sér með mismunandi listform en reyna að lokum af fremsta megni að skilgreina sig og listina sína í heimi listarinnar í dag.

Wednesday, 6. October 2010

Schneider systur á Keðju

Innsetning um Schneider systur sækir innblástur til siða og lifnaðarhátta eftirstríðsáranna. Systurnar lifa í einangruðum heimi og einskorða sig við þröngar forskriftir samfélagsins. Schneider systur eru þær Sólrún Sumarliðadóttir, Silje Nordheim og Tinna Grétarsdóttir. Schneider systur skutu fyrst upp kollinum í dansgöngu Vaðals á Reykjavík Dance Festival 2009. Í ár hafa systurnar svo unnið með að blanda saman dansi, hljóðmynd, handavinnu og stuttmyndum í Englandi, Noregi og á Íslandi.

Wednesday, 6. October 2010

Endurrómun

Þann 9. október munu Leifur Þór Þorvaldsson, Laila Tafur og Bergþóra Einarsdóttir sýna verkið Endurómun (Feedback) á danshátíðinni Keðja Reykjavík. Verkið var upphaflega skapað sem útskriftarverkið hans Leifs úr Fræði og Framkvæmd í Listaháskóla Íslands. En verkið hefur í kjölfarið verið sýnt á Lókal 2009 og í Borgarleikhúsinu.
Hópurinn fékk núna síðast grímu tilnefningu sem danshöfundar ársins fyrir verkið.

Wednesday, 6. October 2010

Eyjaskegg á Keðju

Á Keðja Reykjavík mun dansverkið Eyjaskegg eftir Valgerði Rúnarsdóttur verða sýnt, en verkið var frumflutt á Reykjavík Dansfestival í september síðastliðinn.
Verkið var skapað í gamalli fiskvinnslustöð eða Brimhúsinu, þar sem unnið var útfrá vangaveltum um hafið og nálægð við það. En sýningin fer fram í Brimhúsinu þar sem áhorfendur eru leiddir í ófyrirsjáanlegt ferðalag um rýmið.

Tuesday, 5. October 2010

Íslenski dansflokkurinn frumsýnir Transaquania – Into thin Air

Þann 7. október frumsýnir Íslenski dansflokkurinn stórsýninguna Transaquania – Into thin Air. Sagan af kynjaverum Bláa Lónsins heldur áfram. Skapað af fjölhæfum hóp alþjóðlegs listafólks. Höfundar eru Erna Ómarsdóttir, Damien Jalet og Gabríela Friðriksdóttir. Tónlistin er í höndum Valdimars Jóhanssonar og Ben Frost.

Tuesday, 5. October 2010

Saga & Friðgeir á Keðju

Á Keðja Reykjavík munu Saga Sigurðardóttir og Friðgeir Einarsson flytja rokkþátttunginn "Off the Record - The Secret of Rock 'n Roll", sem þau frumfluttu í Moderna Dansteatern í Stokkhólmi eftir gestadvöl þar sl. vor.
Verkið var einnig flutt á Listahátíð ungs fólks, LungA, á Seyðisfirði í sumar, en þar stýrðu Saga og Friðgeir jafnframt "skapandi hreyfi- og búgísmiðju" með 17 ungmennum frá Norðulöndunum.

Sunday, 3. October 2010

Katie Duck og Alfredo Genovesi með alþjóðlega vinnustofu á Íslandi

Hinn heimsþekkti danshöfundur og dansari Katie Duck mun ásamt tónlistarmanninum Alfredo Genovesi stjórna tíu daga vinnustofu í Listaháskóla Íslands á vegum hins alþjóðleg EMD tengslanets (Explorations in Music and Dance). Fjörutíu dans- og tónlistarnemendur frá ellefu listaháskólum á Norðurlöndunum og Balkanskaganum munu taka þátt í námskeiðinu ásamt dans- og tónlistarnemendur frá LHÍ og verður unnið með dans- og tónlistarspuna í sýningarformi.

Friday, 1. October 2010

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is