AFTER THE RAIN, I SAW YOU

Er maður hræddur við gagnrýni ókunnugra? Hví lítum við ósjálfrátt undan þegar við mætum augliti ókunnugs fólks? Íslandsfrumsýningin á dansmyndinni AFTER THE RAIN, I SAW YOU eftir Hrafnhildi Einarsdóttur verður á Reykjavík Dance Festival þann 2. september næstkomandi. Verkið verður sýnt klukkan 20:00 í Hafnarhúsinu en meðan á Reykjavík Dance Festival stendur verður einnig hægt að sjá dansmyndina á hefðbundnum opnunartíma Hafnarhússins.

Tuesday, 31. August 2010

“Þá skal ég muna þér Kinnhestinn” frumsýnt á fimmtudaginn

Verkið “Þá skal ég muna þér Kinnhestinn” eftir dansfélagið Krumma verður frumsýnt fimmtudaginn 2.sept á vegum Reykjavík Dance festival í Norðurpólnum.

Þetta er í fyrsta sinn sem dansfélagið Krummi kemur opinberlega fram en einungis tvær sýningar verða á verkinu þann 2. og 3. september. Dansfélagið Krummi samanstendur af dönsurunum/danshöfundunum Katrínu Gunnarsdóttur, Sögu Sigurðardóttur, Sigríði Soffíu Níelsdóttur og Snædísi Lilju Ingadóttur.

Monday, 30. August 2010

Eins og vatnið

Eins og vatnið er dansverk fyrir einn dansara sem frumsýnt verður fimmtudaginn 2. september á Reykjavík Dance Festival, nánar tiltekið í Norðurpólnum klukkan 20:00. Verkið er hugleiðing um mátt hins milda, styrkinn í því að gefa eftir, taka við og hrífast með.

Höfundur og flytjandi verksins er Ólöf Ingólfsdóttir en verkið var unnið í gestavinnustofu í Reykjavík og Buenos Aires vorið 2010. Tónlistin er í höndum Ragnhildar Gísladóttur og um búninga og sviðsmynd sér Þórunn Elísabet Sveinsdóttir.

Sunday, 29. August 2010

Digging in the sand with only one hand

"Digging in the sand with only one hand" er verk þar sem dans, tónlist, söngur og sögustund tvinnast saman í eina heild. Verkið verður sýnt á Opnunarhátíð Reykjavík Dance Festival miðvikudaignn 1. september í Hafnarhúsinu. Höfundar og jafnframt flytjendur að dansi, tónlist og texta eru Erna Ómarsdóttir og Valdimar Jóhannsson. Framleiðendur verksins eru Shalala og Dansand í Oostende, Belgíu.

Verkið var upphaflega samið fyrir Dansand hátíðina sem haldin var í strandbænum Oostende í Belgíu í júlí árið 2008.

Saturday, 28. August 2010

Spiral leitar að dönsurum/listamönnum

Spiral Dansflokkurinn leitar að kraftmiklum og skapandi dönsurum/listamönnum fyrir starfsárið 2010/2011.

Prufur verða haldnar í Borgarleikhúsinu þann 28. ágúst 2010 kl. 10. Til að sækja um vinsamlegast fyllið út umsóknarskjal sem finna má undir „hafa samband“.

Ef einhverjar spurningar kvikna hikið þá ekki við að hafa samband við Unni Gísladóttur - unnur@spiral.is eða Gianluca Vincentini - gianluca@spiral.is

Friday, 27. August 2010

Soft Target

Dansverkið Soft Target verður frumsýnt á Reykjavík Dance Festival þann 1. september næstkomandi. Um íslandsfrumsýningu er að ræða en verkið mun síðan halda til Þýskalands þar sem það verður sýnt í Ballhaus Ost leikhúsinu í Berlín en leikhúsið er meðframleiðandi að verkinu ásamt hinu íslenksa kollektívi Panic Productions.

"Ég sá þig og langaði til að tala við þig en það er aldrei nægur tími. Ég mun því ekki geta sannfært þig um neitt. Vitandi þetta þá er ekkert á milli okkar annað en óljós vefur skynjunar og við getum því einungis starað hvort á annað þar til það eina sem eftir uppi stendur er spurningin hvoru megin spegilsins stendur þú?"

Wednesday, 25. August 2010

Knock on Unpainted Wood

Knock on Unpainted Wood heitir nýjasta verk danska dansflokksins Mute Company sem frumsýnt verður 27. ágúst næstkomandi í Kaupmannahöfn. Í verkinu dansar nemandi dansbrautar Listaháskóla Íslands, Marie Handeland, en hún hefur verið á nemendasamning hjá flokknum síðan í maí s.l.

Verkið er fyrsti hluti í tríológíu um hagkerfi undirheimanna: kynlíf, vopn og eiturlyf. Sýnt er í nýju danshúsi Dana, Dansehallerne, sem fyllir allar gömlu Calsberg bjórverksmiðjurnar.

Monday, 23. August 2010

ÁKALL TIL HANDA OG FÓTA

Föstudaginn 19. ágúst stóð FÍLD í samstarfi við ArtFart fyrir "flashmob-i" fyrir fyrir dansara og vini dansins á Lækjartorginu. Viðburðurinn var ákall danssamfélagsins eftir stuðningi almennings fyrir vinnurými og gátu allir mætt og sýnt stuðning í verki með því að sameinast dansinum á torginu.

Á næstu vikum er áætlað að Dansverkstæði - vinnustofa danshöfunda taki til starfa en það er fyrsta rýmið sérhannað með þarfir danshöfunda í huga.

Saturday, 21. August 2010

Raven á menningarnótt

Í ágúst og september fjölgar í hópi Raven, þar sem í fyrsta skipti koma saman allir meðlimir hópsins og verða með ýmsar uppákomur.

Hópurinn mun sýna tvö verk á Menningarnótt, laugardaginn 21. ágúst í miðbæ Reykjavíkur. Verkið NEI eftir Hrafnhildi Einarsdóttur, sem var frumsýnt á Jónsvökuhátíð í júní, og verkið Hliðarspor sem er samvinnuverkefni dansaranna Hrafnhildar Einarsdóttur, Ellen Hörpu Kristinssdóttur, Eszter Göncz, Anna Axiotis, Clara Folenius og Brogan Davison.

Wednesday, 18. August 2010

Er þetta raunverulegt?

Verkið byggist á því að tengja ein fjölförnustu gatnamót miðbæjarins, Ingólfstræti & Bankastræti. Með því að notast við litríka þræði og bönd verður til óákveðið mynstur yfir og í kringum vegfarendur miðbæjarins. Dansararnir munu klæðast litríkum búningum sem fanga athygli bæjarbúa þar sem þeir vefa ímyndaðan himin sem tengir götuhornin saman. Verkið er unnið í samstarfi við danshópinn Uppsteyt.

Tuesday, 17. August 2010

No Perfect Moment, Move Your Spirit Now

Verkið er byggt á danstækninni Passing Through eftir David Zambrano. Dansararnir í verkinu tóku allir þátt í danssmiðju Zambrano á Kosta Ríka í upphafi þessa árs og lærðu Passing Through og tæknina Flying-Low. Verkið er byggt á strúkteruðum spuna þar sem dansararnir hafa það að leiðarljósi að geta aðlagast kringumstæðum eins hratt og hugsanlegt er. Ef leiðin er lokuð þá velurðu aðra, hratt, og notar spíral til að komast áfram. Ekki bíða eftir rétta augnablikinu. þú verður að nota það sem þú hefur, hvar sem þú ert, þegar þú ert þar. Lifðu núna!

Sunday, 15. August 2010

Hnoð sýnir Snoð - fyrsta læknadramað

Kynsjúkdómar og heimsóknir til kvensjúkdómalæknis eru nýjasta umfjöllunarefni danslistahópsins Snoð, en kveikjan að verkinu var sú að Krabbameinsfélag Íslands boðaði meðlimi Hnoðs, fjórar vinkonur, í leghálsskoðun á síðasta ári. "Við fengum allar tilmæli um að mæta í skoðun í fyrsta sinn í fyrra þegar við vorum tvítugar, en félagið boðar konur í leghálsstrok á tveggja ára fresti frá þeim aldri til að finna hvort forstigsbreytingar eða leghálskrabbamein á frumstigi finnist," segir Ásrún Magnúsdóttir, meðlimur í Hnoð, sem mun frumsýna nýtt verk á listahátíðinni artFart, sem verður haldin í fimmta skipti 5.-22. ágúst.

Thursday, 12. August 2010

Stuttmyndakvöld

Nemendur dansbrautar Listaháskólans frumsýndu í maí s.l. 10 dansstuttmyndir en dansmyndagerð er nánast óplægður akur á Íslandi. Var hér verið að sá í jarðveginn fyrir framtíðina og fóru nemendur brautarinnar hamförum þegar þeir þeystust um víðan völl stuttmyndagerðarinnar með spennandi og metnaðarfullar hugmyndir í farteskinu. Afraksturinn birtist nú augum áhorfenda í annað sinn og er ekki við öðru að búast að viðtökurnar verði jafn frábærar og síðast. Myndirnar eru mjög fjölbreyttar og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Wednesday, 11. August 2010

Dancewalks - Upplifðu Reykjavík með mp3 spilaranum þínum

Núna er tækifærið til að upplifa eitthvað sem þú hefur aldrei upplifað áður. Gakktu um Reykjavík með fyrirmælum frá MP3 spilaranum. Dancewalks er verk framleitt af Önnu Asplind og hefur slegið í gegn víða um heim síðan það var frumsýnt í Berlín árið 2009. Dancewalks veltir upp spurningunni hvað er hægt að gera innan borgarrýmis og hvaða hegðun er leyfileg í almenningsrýmum. Með borgina sem tæki og upphaf innblásturs, hefur einföld ganga þróast yfir í dansupplifun.

Tuesday, 10. August 2010

Take it Away!

Melkorka Sigríður Magnúsdóttir sýnir ásamt tveimur útskriftanemum úr P.A.R.T.S. þrjú sólóverk á ArtFart. Um íslandsfrumsýningu er að ræða en verkin voru áður sýnd í hinu virta leikhúsi Beursschouwburg í Brussel.

Verk Melkorku Take it Away –a quartet for a female dancer and three microphones er dansleikur sem fæst við raunveruleikafælni, einmanaleika og samskiptahæfni. Ráðgjafi við gerð verksins var enginn annar en hinn heimsfrægi Wim Vandekeybus.

Monday, 9. August 2010

Hvernig var þinn dagur?

Oft á tíðum koma upp atvik snemma á morgnana sem setja ef til vill allan daginn úr skorðum. Hvernig ætla ég að takast á við daginn? Hvernig ætlar áhorfandinn að fara í gegnum minn dag? Hvernig var þinn dagur er kómísk ljósmyndasaga og dansgjörningur allt í bland.

Sýningartímar :
9. ágúst kl 21:00 - 22:00
10. ágúst kl 21:00 - 22:00

Sunday, 8. August 2010

JUST HERE!

Persónulegt rými er það svæði sem hver einstaklingur lítur á sem sitt eigið. Innrás inn í þetta rými veldur oft óþægindum, reiði eða kvíða. Þetta er þó einstaklingsbundið og viðbrögð við slíkri innrás fara eftir því hver það er sem stendur á bak við hana. Okkur líður betur í kringum ákveðið fólk en annað. Og þó þú getir verið náinn ákveðnum aðila í ákveðinn tíma getur það seinna valdið pirringi eða jafnvel reiði. Í sýningunni er skoðað hvernig er hægt að færa okkar innra rými út í hið leikræna rými.

Saturday, 7. August 2010

Dansinn dunar á ACT ALONE

Dansinn mun ekki vanta á sjöundu ACT ALONE hátíðina sem haldin verður hátíðleg dagana 13. - 15. ágúst n.k. á Ísafirði. Á öðrum degi hátíðarinnar verður boðið uppá dansverkið LUZ eftir finnska dansarann Hennu Riikku Nurmi. Sýningin verður laugardaginn 14. ágúst í Edinborgarhúsinu og hefst kl.15.

Dansverkið LUZ sem þýðir ljós er leikur finnska dansarans Hennu að finnsku orðunum valo (ljós), varjo (skuggi), uni (draumur) og harha (missýning).

Thursday, 5. August 2010

Dansarar í eldsnöggu steypiflugi

Dansarinn Inga Maren Rúnarsdóttir mun halda vinnustofu á artFart í ár, undir Reykjavík Public Space Programme. Þar verður unnið með tækni hins heimsfræga David Zambrano Flying Low og Passing Through en Inga hefur nýlokið réttindaprófi í þessari danstækni undir handleiðslu meistarans sjálfs. Þessi vinnustofa mun bjóða upp á spennandi tækifæri fyrir dansara, danshöfunda og listamenn sem vilja víkka út hinn listræna og tæknilega ramma sinn.

Wednesday, 4. August 2010

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is