Bristol Ninja Cava Crew á Villa Reykjavík

Bristol Ninja Cava Crew kom fram á Villa Reykjavík 15.júlí síðastliðinn. Performancinn var partur af röð gjörninga "Domains of Joyful Degradation" curata-ð af Kolbeini Huga Höskuldsson og Kling & Bang Gang.

Bristol Ninja Cava Crew samanstendur af Ingibjörg Sigurjónsdóttur myndlistarmanni og SigguSoffiu sviðslistamanni. Aðalsteinn Stefánsson sá um ljósahönnun en hljómsveitin Quadruplos gerði tónlistina. Verkið var sýnt í gamla Fiskkaup húsinu á Geirsgötunni í gömlum kæliklefa.

Monday, 26. July 2010

Katla Þórarinsdóttir á götulistahátið í Austurríki

Katla er á leiðinni til Austurríkis til að sýna ásamt samstarfsmanni sínum Lee Nelson á einni stærstu götulistahátíð í Evrópu, Pflasterspektakel 2010 í Linz. Á hátíðinni munu þau bregða á leik sem hinir íslensku acrobatar Jóhanna og Jóhann og skemmta fólksfjöldanum. Þetta er annað árið í röð sem þeim er boðið að vera þátttakendur á hátíðinni og má það teljast heiður að komast inn á hátíðina tvö ár í röð þar sem aðsókn listamanna er mikil. Í ár munu þau einnig koma fram á tveimur öðrum hátíðum, Straßenkunstfestival í Villach og Feldkircher Gauklerfestival, Feldkirch.

Friday, 23. July 2010

Vaðall á Flateyri

Ferðalag Gangárans heldur áfram, að þessu sinni er stoppustaðurinn Flateyri. Mæting er svið pakkhússins, næstkomandi laugardag 24.júlí kl:17:00.

Það eru þær Vaðalssystur, dansararnir og danshöfundarnir, Aðalheiður Halldórssdóttir og Valgerður Rúnarsdóttir, sem hafa skapað heim Gangárans ásamt leikhúslistamanninum og ljóðskáldinu Ragnari Ísleifi Bragasyni. En það var fyrir tilstilli Reykjavík Dansfestival 2009 að viðburðurinn leit dagsins ljós og í kjölfarið ákváðu þau að ferðast með verkið um landsbyggðina í sumar.

Wednesday, 21. July 2010

Þrír íslenskir dansarar útskrifast frá P.A.R.T.S

Þrír íslenskir dansarar, þær Melkorka Sigríður, Bára Sigfúsdóttir og Védís Kjartansdóttir útskrifuðust nýlega af Training Cycle brautinni í hinum virta dansskóla P.A.R.T.S í Belgíu. Skólinn hefur verið starfræktur í fimmtán ár og hefur nú þegar verið skilgreindur sem ein meginstoð dansskóla í heiminum. Námið býður upp á þjálfun í samtímadansi og hjálpar dönsurunum að mótast sem sjálfstæðir listamenn með því að gefa þeim innsýn í mismunandi form sviðslista.

Tuesday, 20. July 2010

Saga og Friðgeir á LungA

Dans- og sviðslistamennirnir Saga Sigurðardóttir og Friðgeir Einarsson boða nú fagnaðarerindið fyrir austan Kjöl, en þau leiða skapandi hreyfi- og búgísmiðju;"Yes sir, I can boogie" á listahátíð ungs fólks á Seyðistfirði, LungA. Hátíðin fagnar tíu ára afmæli sínu um þessar mundir. 17 ungmenni frá Íslandi, Finnlandi og Danmörku taka þátt í smiðjunni, en afrakstur vinnunnar fær að njóta sín á uppskeruhátíð LungA á laugardaginn kemur. Búgi, eða “boogie” er upprunnið úr tungu Sierra Leone -manna í Afríku, og merki hreinlega “að dansa” og verður þessu hugtaki fagnað og því snúið á ýmsa kanta á Seyðisfirði þessa vikuna.

Monday, 19. July 2010

Valin á Fringe Festivalið í Edinborg

Lokaverkefni Snædísar Lilju hefur verið valið til sýningar í lok ágúst á leiklistarhátíð í Edinborg ( Edinburgh Fringe Festival). Hátíðin er ein af stærstu leiklistarhátíðum í Evrópu og er mikill heiður að vera valin til að sýna þar. Verkið verður einnig sýnt í byrjun ágúst í Reykjavík á sviðslistarhátíðinni ArtFart.

Snædís Lilja Ingadóttir var að ljúka námi í Leiklist frá Rose Bruford College í London.

Wednesday, 7. July 2010

Frumsýning á Colorblind verki Sigríðar Soffíu Níelsdóttur

Þann 29.júní síðastliðinn var dansverkið Colorblind eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur frumsýnt í Bytom, Póllandi.

Verkið er hluti af danshöfundaskiptum milli Silesian Dance Theater í Póllandi og Íslenska Dansflokksins. Sigríður Soffía samdi verk fyrir Silesian Dance Theater en Jacek Luminski samdi verk fyrir Íslenska Dansflokkinn en bæði verkin voru frumsýnd þann 29.júní á einu stærsta dansfestivali í Póllandi.

Tuesday, 6. July 2010

Útskrifast með BA-gráðu í klassískum ballett

Sæunn Ýr Marinósdóttir útskrifaðist 1. júli 2010, með BA-gráðu í klassískum ballett frá Ungversku dansakademíunni (Hungarian Dance Academy; Magyar Táncmüvészeti Föiskola) í Búdapest, Ungverjalandi. Er hún fyrst íslenskra listdansara til að útskrifast með BA-gráðu, að því að best er vitað. Áður hefur Sæunn Ýr lokið stúdentsprófi frá Konunglega sænska ballettskólanum í Stokkhólmi vorið 2007. Í ágúst mun Sæunn Ýr síðan fara á samning hjá ballettinum í Dortmund.

Monday, 5. July 2010

Móanóra hressir upp á umhverfið

Móanóra er einn þeirra fjögurra danshópa sem starfar nú sem Sumarlisthópur á vegum Hins hússins og mun koma fram víðs vegar um bæinn. Markmið danstríósins er að kynna hinar ýmsu hliðar listdansins fyrir gangandi vegfarendum og leggur það áherslu á að gleðja augað með fjölbreyttum uppákomum. Stelpurnar mynda form og uppstillingar með tilliti til bygginga og annarra umhverfisþátta. Þær munu nýta fjölbreytt umhverfi, skúmaskot miðbæjarins, bekki, grindverk og styttur.

Sunday, 4. July 2010

Dansandi Drengir

DANSANDI DRENGIR eru einn af listhópum Hins Hússins í sumar. Dansandi drengir eru þeir Karl Friðrik Hjaltason, Kolbeinn Ingi Björnsson, Sveinn Breki Hróbjartsson og Viktor Már Leifsson. Markmið hópsins er að vekja dans í menningarlífi Reykjavíkurborgar og sýna að hann geti höfðað til allra. Allir hafa þeir mismunandi bakgrunn í dansi s.s. samkvæmisdans, breakdans, spunadans, nútímadans og klassískan listdans en í dag stunda þeir allir dansnám við Listdansskóla Íslands.

Friday, 2. July 2010

Danshópurinn Uppsteyt með uppsteyt í Reykjavík í sumar

Þrjár ungar stúlkur flæktust í vef töfrandi dansheims. Leiðir þeirra lágu saman í krefjandi listdansnámi. Þær hafa sameinað magnaða krafta sína og stofnað danshópinn Uppsteyt. Í samvinnu við Hitt Húsið og með hjálp styrks frá ,,Evrópu unga fólksins" dansa þær í Reykjavík í sumar á óvenjulegum stöðum, sem krefjast þess að áhorfendur líti upp!! Yfirnáttúrulegir hlutir eru stúlkunum hugleiknir og töfrum slungnar hreyfingar verða allsráðandi!Þið megið búast við ævintýrum í sumar! Fylgist vel með!!!

Thursday, 1. July 2010

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is