Ellen Margrét Bæhrenz nær þriðja sæti í alþjóðlegri ballettkeppni í Svíþjóð

Wednesday, 19. May 2010

Í ár kepptu fyrir Íslands hönd þau Ellen Margrét Bæhrenz (17), Karl Friðrik Hjaltason (16) og Sigrún Ósk Stefánsdóttir (18), öll nemendur við Listdansskóla Íslands.
Ellen Margrét gerði sér lítið fyrir og náði þriðja sæti í keppninni og mun þetta vera besti árangur Íslendings í þessari keppni frá upphafi.
Sambærileg afrek á þessu sviði væru helst þegar Auður Bjarnadóttir vann fyrstu verðlaun í ballettkeppni í Kuopio, Finnlandi 1979 og þegar Helgi Tómasson vann silfurverðlaun í alþjóðlegri ballettkeppni í Moskvu 1969 (það var enginn annar en Mikhail Baryshnikov sem vann gullið.)

Ellen Margrét dansaði tvo sólóa í keppninni, annan úr ballettinum Coppeliu og hinn úr Le Corsair, eins og undanfarin ár hafði Birgitte Heide yfirumsjón með þjálfun keppendanna og var þeim til halds og trausts úti.

Hér heima fór fram undankeppni á vegum Félags íslenskra listdansara (Fíld) 17. febrúar síðastliðinn í Íslensku Óperunni.
Stora Daldansen ballettkeppnin fór fram dagana 13.-15. maí í Falun í Svíþjóð. Keppnin er opin ballettnemum á aldrinum 15-17 ára og 18-20 ára frá norðurlöndunum og baltnesku löndunum. Keppnin hefur verið haldin árlega frá 1988 og af fyrrverandi sigurvegurum eru margir vel þekktir dansarar í dag.

Ísland hefur undanfarin ár átt fulltrúa í úrslitum Stora Daldansen og má þar nefna Emilíu Benediktu Gísladóttur, Frank Fannar Pedersen og Sigrúnu Ósk Stefánsdóttur en Ellen Margrét er fyrst til þess að hljóta verðlaun í þessari norrænu/baltnesku keppni.

Heimasíða Stora Daldansen

 

 

 

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is