Dansbraut Listaháskóla Íslands frumsýnir 9 dansstuttmyndir.

Sunday, 16. May 2010

Nemendur dansbrautar Listaháskólans eru rétt í þess að ljúka 6 vikna dansmyndagerðanámskeiði undir stjórn Helenu Jónsdóttur, danshöfundar og kvikmyndagerðakonu. Dansmyndagerð er nánast óplægður akur á Íslandi og er hér verið að sá í jarðveginn fyrir framtíðina. Er þetta í annað sinn sem námskeiðið er kennt við Listaháskólann.

Nemendur brautarinnar hafa farið hamförum síðustu vikurnar og þeyst um víðan völl stuttmyndagerðarinnar með spennandi og metnaðarfullar hugmyndir í farteskinu. Þessa dagana er eftirvinnsla myndanna í gangi og tónsmiðir að reka síðasta höggið í smíðina. Frumsýning myndanna verður fimmtudaginn 20. maí, kl. 20:00 í Smiðjunni á Sölvhólsgötu 13.

Mynd frá síðasta námskeiði, Uniform Sierra, hefur verið að ferðast milli hátíða um heim allan auk þess að vinna til verðlauna og verður því afar spennandi að fylgjast lífdögum þeirra mynda sem nú eru í fæðingu.

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is