Lokasýningar á dansverkinu Kyrrja

Fyrsta verk Ragnheiðar Bjarnarson.
Frumsýnt 20. maí á Norðurpólnum. Lokasýningar 3. og 4. júní nk.

Miðaverð: 1800kr. og 1500kr. fyrir nema og hópa.
Miðapantanir fara fram í síma 772-5777 og á midi.is

Monday, 31. May 2010

RITUAL/ HELGISIÐIR stórborgarbreik & inúítar

RITUAL er hrátt, gamansamt og hugvíkkandi ferðalag innblásið af Inúítamenningu, stórborgabreikdansátökum, náttúru heimskautasvæðisins og hlýnun jarðar. Dans, tónlist og ljós bráðna saman í einstaka sýningu um frumkrafta manns og náttúru.

Lene Boel stillir upp töfrandi og andlegum gildum hefðbundinnar Inúítamenningu við hlið hrárrar orku og kraftmikillar breikdansmenningu.

Sunday, 23. May 2010

Spiral leitar að danshöfundum

Spiral Dansflokkurinn auglýsir eftir hæfileikaríkum danshöfundum til að setja upp nýtt og framúrstefnulegt dansverk fyrir flokkinn á starfsárinu 2010 – 2011.

Umsóknir eru opnar öllum yfir 20 ára aldri.

Þeir sem hafa áhuga á samstarfi með flokknum, vinsamlegast sendið inn DVD-disk með sýnishorni af verkum ykkar ásamt ferilskrá

Saturday, 22. May 2010

Magga Bjarna framleiðir nýtt dansverk í K3 - miðstöð fyrir danssmíðar í Kampnagel í Þýskalandi.

Margrét Bjarnadóttir danshöfundur mun dvelja og starfa í Hamborg í Þýskalandi næstu átta mánuði en hún er ein þriggja danslistamanna sem hefur hlotið vinnuaðstöðu í K3 - Zentrum fur choreographie - Tanzplan Hamburg auf Kampnagel. Kampnagel er stærsta sviðslistahús sinnar tegundar í Þýskalandi og hýsir m.a. samtímadans, leikhús, myndlistarviðburði og tónleika. Þar mun Margrét vinna að nýju verki sem frumsýnt verður í Kampnagel í nóvember 2010 og hefur fengið vinnutitilinn "On Misunderstanding". Fyrri helmingur átta mánaða tímabilsins er hugsaður til undirbúnings- og rannsóknarvinnu og seinni helmingurinn til framleiðslu og uppsetningar á verki.

Thursday, 20. May 2010

Ellen Margrét Bæhrenz nær þriðja sæti í alþjóðlegri ballettkeppni í Svíþjóð

Í ár kepptu fyrir Íslands hönd þau Ellen Margrét Bæhrenz (17), Karl Friðrik Hjaltason (16) og Sigrún Ósk Stefánsdóttir (18), öll nemendur við Listdansskóla Íslands.
Ellen Margrét gerði sér lítið fyrir og náði þriðja sæti í keppninni og mun þetta vera besti árangur Íslendings í þessari keppni frá upphafi.
Sambærileg afrek á þessu sviði væru helst þegar Auður Bjarnadóttir vann fyrstu verðlaun í ballettkeppni í Kuopio, Finnlandi 1979 og þegar Helgi Tómasson vann silfurverðlaun í alþjóðlegri ballettkeppni í Moskvu 1969 (það var enginn annar en Mikhail Baryshnikov sem vann gullið.)

Wednesday, 19. May 2010

Aftursnúið á Akureyri – Nýtt dansverk frumsýnt á Akureyri um hvítasunnuhelgina

Aftursnúið er nýtt dansverk sem frumsýnt verður í Rýminu, Akureyri, laugardaginn 22. maí. Verkið er unnið af Menningarfélaginu en það skipa Ásgeir Helgi Magnússon og Inga Maren Rúnarsdóttir dansarar, Júlíanna Lára Steingrímsdóttir videolistamaður og Lydía Grétarsdóttir tónsmiður.

Verkið fylgir tveimur einstaklingum og tilraunum þeirra til að fóta sig við ókunnar aðstæður og takast á við heiminn eftir að honum hefur verið snúið á hvolf.

Tuesday, 18. May 2010

KYRRJA – er glænýtt íslenskt dansverk.

Fyrsta verk Ragnheiðar Bjarnarson.
Frumsýnt 20. maí á Norðurpólnum (nýtt leikhús á Seltjarnarnesi)
Aðrar sýningar eru 21. 27. 28. maí og 3. 4. júní.

Miðaverð: 1800kr, tilboðsverð 1500kr.
Miðapantanir fara fram í síma 772-5777 og á midi.is

Monday, 17. May 2010

Dansbraut Listaháskóla Íslands frumsýnir 9 dansstuttmyndir.

Nemendur dansbrautar Listaháskólans eru rétt í þess að ljúka 6 vikna dansmyndagerðanámskeiði undir stjórn Helenu Jónsdóttur, danshöfundar og kvikmyndagerðakonu. Dansmyndagerð er nánast óplægður akur á Íslandi og er hér verið að sá í jarðveginn fyrir framtíðina. Er þetta í annað sinn sem námskeiðið er kennt við Listaháskólann.

Frumsýning myndanna verður fimmtudaginn 20. maí, kl. 20:00 í Smiðjunni á Sölvhólsgötu 13.

Sunday, 16. May 2010

Dance, Music and Electronics

RAFLOST: Dance, Music and Electronics verður sýnt laugardaginn 15. maí 2010 í Útgerðinni, Grandagarði.
Hnoð mun dansa, Kópavogur Computer Music Studio mun spila og Hakkavélin mun sýna nýhökkuð verkefni.
WWW.RAFLOST.IS
Hefst kl.21:00 og stendur til u.þ.b.22:00.

Saturday, 15. May 2010

Helena Jónsdóttir danshöfundur opnar Listahátíð í Reykjavík 2010

Á sjötta tug listamanna; dansarar, söngvarar, tónlistarmenn og hönnuðir, sýndu gjörninginn “Barnafossa” eftir Helenu Jónsdóttur á opnun Listahátíðar í Reykjavík í vikunni en verkið var sérstaklega unnið inn í rýmið í Hafnarhússins. Barnafossar eru hluti af stærra verki, Biðstofunni/The Green Room, sem hefur verið í vinnslu hjá höfundi og hennar nánasta samstarfsfólki undanfarin misseri. Um er að ræða viðamikið fjöllistaverk fyrir svið með ótal vaxtasprotum, m.a. í formi kvikmynda- og sjónvarpsverks, myndlistainnsetningar, hönnunar- og handverks.

Friday, 14. May 2010

Uniform Sierra sýnd í 13 stærstu borgum Ástralíu og Nýja Sjálands

Stuttmynd Sigríðar Soffíu Uniform Sierra verður sýnd á opnunarkvöldi Reeldance-tvíæringsins föstudaginn 14 maí. Þar með byrjar Ástralíutúr myndarinnar en Uniform Sierra mun verða sýnd í 13 stærstu borgum Ástralíu í sumar en hátíðin endar í Nýja Sjálandi. Opnun kvikmyndahátíðarinnar verður haldin í Sydney en myndin verður m.a. sýnd í Brisbane, Melborne,Perth, Alice Springs, Darwin,Cairns. Adelaide…o.fl

Thursday, 13. May 2010

Dansgjörningurinn “Sláturhús hjartans” í Verksmiðjunni á Hjalteyri

Laugardaginn 15. maí n.k. verður frumfluttur dansgjörningurinn “Sláturhús hjartans” í listrými Verksmiðjunnar á Hjalteyri við Eyjafjörð. Sýningin hefst kl. 17:00.
Höfundar verksins eru Anna Richards dansgjörningalistakona og Sigurbjörg Eiðsdóttir myndlistakona.
Flytjandi verksins er Anna Richards en í verkinu koma fram, auk Önnu, Hallgrímur J. Ingvason tónlistamaður, Helga Rós Indriðadóttir sópransöngkona, Sigurður Hólm Sæmundsson björgunarsveitamaður og Karlakór Dalvíkur undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Sviðsstýra og ljósmóðir verksins er Lene Zachariassen.

Wednesday, 12. May 2010

Teach us to outgrow our madness sýnt í Belgíu

Verk Ernu Ómarsdóttur "Teach us to outgrow our madness" var sýnt föstudaginn 7. maí í De Warande leikhúsinu í Turnhout, Belgíu. Verk Ernu deildi kvöldinu með sviðsverki eins virtasta og umdeildasta leikhúslistamanni Evrópu í dag, Jan Fabre en sýningin hans kallast "Another Sleepy Dusty Delta Day".

"Teach us to outgrow our madness" hefur nú verið sýnt víðsvegar í Frakklandi, Bretlandi, Ítalíu, Íslandi ,Hollandi og nú í Belgíu. Í verkinu dansa Erna Ómarsdóttir, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, Sigríður Soffía Níelsdóttir, Sissel M. Björkli og Valgerður Rúnarsdóttir en Valdimar Jóhannson og Lieven Dusselare sjá um tónlistina.

Tuesday, 11. May 2010

Íslenski dansflokkurinn var kallaður stjarna danshátíðar í Þýskalandi

Gagnrýnandi átti ekki til orð yfir þeirri fjölbreytni og hæfileikum sem koma frá Íslandi.

Þýskir gagnrýnendur voru yfir sig hrifnir af sýningu Íslenska dansflokksins á danshátíð í Bremen sem haldin var dagana 9.-17. apríl. Uppselt var á sýningu flokksins en Íd bauð gestum hátíðarinnar upp á fjölbreytt kvöld með þremur mjög ólíkum verkum sem sýndu vel breidd dansflokksins. Á dagskránni voru tvö verk eftir þekkta og virta danshöfunda.

Monday, 10. May 2010

Útskriftarsýning

Laugardaginn 8. maí er útskriftarsýning 3. árs nema klassíska listdansskólans.

Sýnd verða persónuleg verk eftir 3. árs nema einnig verkin "Vorblót" eftir Pina Bausch og "Eva" eftir Kama Jezierska.

Svanavatn eftir Mathew Bourne (10min atriði með yngri nemendum).

Friday, 7. May 2010

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is