Vorsýning Listdansskóla Hafnarfjarðar

Vorsýning Listdansskóla Hafnarfjarðar verður haldin 1. maí í Borgarleikhúsinu. Þema þetta árið verður Lísa í Undralandi

Miðar fást á midi.is

Fyrri sýning er kl. 14:00 og seinni sýning kl. 16:00.

Hlökkum til að sjá sem flesta!

Friday, 30. April 2010

Boðskapur Alþjóða dansdagsins 2010 eftir Julio Bocca

Danslistin er vinna, menntun og samtal.
Með henni spörum við okkur orð sem aðrir myndu ef til vill ekki skilja. Við sköpum sameiginlegt tungumál til handa öllum.
Danslistin veitir okkur ánægju, hún gerir okkur frjáls og veitir okkur mannfólkinu huggun, okkur sem ekki getum flogið eins og fuglarnir, frjáls um himinhvolfið, út í hið óendanlega.

Danslistin er himnesk, í hvert sinn er hún öðru vísi en áður - eins og ástarlot - þar sem hjartað hamast í brjóstinu í lok hverrar sýningar af tilhlökkun fyrir næsta endurfundi.

Thursday, 29. April 2010

Fjölskyldumessa í Fella- og Hólakirkju

Síðastliðinn sunnudag 25. apríl dönsuðu fjórir nemendur Listdansskólans við fjölskyldumessu í Fella- og Hólakirkju. Messan var þáttur í barnamenningarhátíðinni sem lauk einmitt í dag. Atriðið þeirra "Fix me Jesus" var hluti af vorsýningu skólans þann 31. mars síðastliðinn og ætti heima við messur sem víðast í kirkjum landsins.

Dansararnir að þessu sinni voru Gunnhildur, Kalli, Kolbeinn og Viktoría öll á fyrsta ári framhaldsdeildar en sami hópur dansaði á Páskadagsmorgun við messu hjá Óháða söfnuðinum nema þar dansaði Viktor í stað Kalla.

Tuesday, 27. April 2010

Keðja Reykjavík auglýsir eftir tillögum

Keðja Reykjavík auglýsir eftir tillögum að sviðlistaviðburðum eða bræðingi að dansi, tónlist og leiklist þar sem tekist er á við form sviðslista með nýstárlegum og framsæknum hætti. Óskað er eftir tillögum frá einstaklingum, listhópum og stofnunum. Viðburðir geta farið fram jafnt utandyra sem innandyra, á leiksviðum sem og í öðrum rýmum.
Keðja Reykjavík er umfangsmikill alþjóðlegur sviðslistaviðburður sem haldinn verður 8. – 10.október 2010 n.k. Viðburðurinn er á vegum Íslenska dansflokksins, Listaháskóla Íslands, Borgarleikhússins, Sjálfstæðu leikhúsanna og Reykjavík Dance Festival.

Monday, 26. April 2010

Uppfinningamaðurinn - Dansverk fyrir alla fjölskylduna

Hvers vegna er aldrei nógur tími til að klára leikinn? Hvers vegna þarf ég að velja á milli ballett eða karate? Það er alltaf verið að segja mér að láta ekki eins og smákrakki en mér finnst að ég eiga að fá að stækka í friði! Ég er uppfinningamaður og skal finna mig upp sjálf!

Friday, 23. April 2010

Allir á svið! Stefnumót sviðslista- og skólafólks

Ættu öll íslensk börn að fá tækifæri til að stunda og njóta sviðslista sem hluta af sinni skólagöngu? Geta greinar eins og leiklist og dans geti svarað kalli samtímans eftir fjölbreyttara skólastarfi og áherslu á skapandi og gagnrýna hugsun? Stefnt verður saman listafólki, kennurum og öðrum áhugasömum um sviðslistir og skólastarf. Nokkur örstutt erindi sem varpa ljósi á stöðu sviðslista í íslenskum skólum.

Leiklistarsamband Íslands og Barnamenningarhátíð í Reykjavík 2010 standa sameiginlega að málþingi þar sem stefnt verður saman listafólki, kennurum og öðrum áhugasömum um sviðslistir og skólastarf.

Friday, 23. April 2010

KORUS í Loftkastalanum á Alþjóðlega dansdeginum 29.apríl kl. 20:00

Félag íslenskra listdansara fagnar degi dansins í ár með nýjum og spennandi dansviðburði. Vinsældir danskeppna með ýmsu sniði fara sífellt vaxandi og er hugmyndin að KORUS liður í því að auka við skemmtilegra flóru danskeppna hérlendis. Um er að ræða hópdanskeppni með frjálsri aðferð þar sem meðlimir hópsins spreyta sig með FRUMSAMINN dans.

Hér er um nýjan og spennandi vettvang að ræða fyrir upprennandi dansara en keppt er í tveimur aldursflokkum, 13-15 ára og 16-20+ára.

Tuesday, 20. April 2010

Darí Darí Dance Company sýnir í Gent í Belgíu

Guðrún Óskarsdóttir og Katla Þórarinsdóttir munu halda til Gent í Belgíu næstkomandi miðvikudag þar sem Darí Darí Dance Company sýnir dansverkið Marbara á alþjóðlegu danshátíðinni Rêverie dagana 20. - 26. apríl. Verkið verður sýnt 22., 23. og 24. apríl.

Dansverkið Marbara var frumsýnt á Reykjavík Dance Festival haustið 2009 en auk þess hefur það verið sýnt í Turin á Ítalíu og í jóladagatali Norræna hússins 2009.

Monday, 19. April 2010

Uppselt er á sýning Íslenska dansflokksins á alþjóðlegri danshátíð í þýskalandi

Íslenska dansflokknum hefur verið boðið að sýna á stórri alþjóðlegri nútímadanshátið, Tanz Bremen, sem er haldin árlega í Bremen og verður nú dagana 9.-17. apríl. Dansflokkurinn sýnir þar ásamt fjölda þekktra dansflokka og danshöfunda og sem dæmi má nefna að þá sýnir hinn heimsþekkti flokkur Les Ballet C de la B á hátíðinni og danshöfundarnir André Gingrás og „Guy and Roni“ eru einnig með verk á dagskránni.

Monday, 12. April 2010

The Great Escape

Dansarinn Saga Sigurðardóttir mun ásamt sviðslistamanninum Friðgeiri Einarssyni dvelja á næstunni í skapandi erindagjörðum í Stokkhólmi þar sem Sögu og Friðgeiri hefur boðist vinnusmiðja hjá Moderna Dansteatern, meginmiðstöð danslista þar í borg.
Saga og Friðgeir munu þar leggja drög að nýju sviðsverki sem hlotið hefur vinnuheitið The Great Escape, en þau njóta til þess aðseturs og fagmannlegrar aðstöðu hjá Moderna í tvær vikur. Þá munu þau koma fram og sýna verk í vinnslu ásamt fleiri listamönnum á opnu kvöldi í leikhúsinu 14. apríl, en þann 24. apríl koma þau einnig fram á skipulagðri menningarnótt á vegum Moderna Dansteatern.

Saturday, 10. April 2010

Blóð - sviti - tár : Íslensk dansverk í Hafnarfjarðarleikhúsinu

Danstvennan Taka#2 verður haldin í Hafnarfjarðarleikhúsinu dagana 13. og 15. apríl næstkomandi.
Á dagskrá eru verkin 900 02 eftir sviðslistamanninn Leif Þór Þorvaldsson og danslistamanninn Sigríði Soffíu Níelsdóttur og SHAKE ME eftir Íslensku hreyfiþróunarsamsteypuna.

Bæði verkin voru sýnd við frábærar viðtökur áhorfenda fyrr í vetur og því hafa listamennirnir ákveðið að efna til örfárra endursýninga sem dansunnendur mega svo sannarlega ekki missa af.

Thursday, 8. April 2010

Monkey Sandwich

Dansarinn og danshöfundurinn Melkorka Sigríður Magnúsdóttir hefur undanfarna daga unnið við tökur á nýrri kvikmynd Wim Vandekeybus sem nefnist Monkey Sandwich. Danshöfundurinn Wim Vandekeybus stýrir hinum virta dansflokki Ultima Vez, sem hlotið hefur fjölda viðurkenninga og komið fram á listahátíðum víða um heim. Kvikmyndin verður frumsýnd ásamt sviðsverki í september á þessu ári. Melkorka Sigríður útskrifast frá P.A.R.T.S í Brussel í júní n.k. eftir fjögurra ára nám í dansi og danssmíði í Listaháskólum í Hollandi og Belgíu.

Tuesday, 6. April 2010

Tónlistar- og dansspuni í Hallgrímskirkju

3. apríl verður, samkvæmt almanaki, myrkur í Reykjavík klukkan 21:15. Nákvæmlega þá hefst spunagjörningur í myrkvaðri Hallgrímskirkju, tónlistarmenn verða á mismunandi stöðum í rýminu og spinna fram að tónleikunum Ólafar Arnalds, sem hefjast klukkan 22. Danshópurinn HNOÐ tekur þátt í viðburðinum.

Saturday, 3. April 2010

Margrét Sara semur hreyfingar fyrir WORTH#1

Margrét Sara Guðjónsdóttir(www.panicproductions.is) mun semja hreyfingar fyrir nýtt sviðs verk eftir Rahel Salvoldelli (www.gutestun.com) og Tim Habeger (www.pushpushtheater.com), tittlað WORTH#1.

Verkið er samvinuverkefni milli Push Push leikhússins í Atlanta (U.S.A) og GutesTun leikflokksins í Berlín auk íslenska sviðsverka fyrirtækisins Panic Productions og er unnið í sameiningu af þáttakendum. Þema verksins er endurmat á gildum, peningum, samfélaginu og samböndum. Hugtakið “gæði” verður tekið rækilega fyrir.

Thursday, 1. April 2010

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is