Íslenski danflokkurinn frumsýnir „Endalaus“

Fallegt og tilfinningaríkt verk eftir tvo unga framúrskarandi listamenn

Danshöfundur er Alan Lucien Öyen sem er ungur en margverðlaunaður listamaður

Frumsamin tónlist í verkinu er eftir Ólaf Arnalds einn af áhugaverðustu tónlistarmönnum Íslands í dag

Þann 4. febrúar næstkomandi frumsýnir Íslenski dansflokkurinn nýtt verk eftir Alan Lucien Öyen, ungan norskan danshöfund sem hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín. Alan hefur getið sér gott orð fyrir falleg, tilfinningarík og ljóðræn verk með djúpri innri merkingu.

Friday, 29. January 2010

Talking Tree eftir Ernu Ómarsdóttur

Þann 11,12 og 13 febrúar næstkomandi sýnir Erna Ómarsdóttir danshöfundur & dansari verkið Talking Tree í Paris. Verkið verður sýnt í franska leikhúsinu Theatre National de Chaillot en mikill heiður er fólgin í því að fá boð um að koma fram á því sviði. Talking Tree var frumsýnt árið 2008 í Brest, Frakklandi en þetta er 28 sýning verksins.

Verkið hefur meðal annars verið sýnt á Íslandi, Ítalíu, Finnlandi, Belgíu, Svíþjóð, Noregi, Sviss, Spáni og víðsvegar í Frakklandi.

Wednesday, 27. January 2010

Bára Magnúsdóttir hlýtur þakkarviðurkenningu

Mikið var um dýrðir í Perlunni þann 21. janúar síðastliðinn þegar Félag kvenna í atvinnurekstri veitti sínar árlegu viðurkenningar við hátíðlega athöfn undir veislustjórn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra. Þakkarverðlaunin hlaut að þessu sinni Bára Magnúsdóttir dansfrömuður og voru verðlaunin afhent af Gylfa Magnússyni efnahags- og viðskiptaráðherra og Birnu Einarsdóttur bankastjóra Íslandsbanka.

Monday, 25. January 2010

Dansbraut LHÍ

Opnað hefur verið fyrir umsóknir á dansbraut Listaháskóla Íslands. Frestur til þess að skila inn umsókn er 15. mars en inntökuprófin verða haldin helgina 17.-18. apríl.

Nám í samtímadansi er þriggja ára nám til 180 eininga og undirbýr hæfileikaríka dansnemendur af framhaldsstigi fyrir fjölbreytt starfsvið sem danslistamenn. Að námi loknu og tilskildum prófum og verkefnum hljóta nemendur B.A. gráðu í samtímadansi.

Thursday, 21. January 2010

Zambrano námskeið

Inga Maren Rúnarsdóttir mun taka þátt í alþjóðlegu dansnámskeiði leiddu af dansfrömuðinum David Zambrano þar sem hann kennir tækni sína Flying-Low og Passing Through. Námskeiðið verður haldið í San Jose á Kosta Ríka og tekur 10 vikur en þetta mun vera lengsti samfelldi tími sem Zambrano hefur nokkru sinni varið í að kenna tækni sína á sama stað með sama hóp. Hópurinn er samsettur af 35 atvinnudönsurum sem eru útvaldir hvaðan af úr heiminum.

Wednesday, 20. January 2010

Unnið að samningi fyrir danshöfunda

Nú eru samningar fyrir danshöfunda innan stofnanaleikhúsanna í smíðum og er stefnt á að leggja samninginn fyrir leikhúsin í vor. Guðmundur Helgason formaður 7.deildar dansara innan FÍL (Félag íslenskra leikara) hefur unnið að samningnum ásamt Ástrósu Gunnarsdóttur og Sveinbjörgu Þórhallsdóttur og var uppkastið sent nokkrum danshöfundum innan félagsins til yfirlestrar fyrir áramót. Svo stendur til að hittast og fara í gegnum samninginn og fínpússa hann áður en hann verður lagður fyrir leikhúsin. Við njótum þarna aðstoðar Hrafnhildar hjá FÍL og vonandi munu leikhúsin taka okkur vel. Þarna er verið að stíga mikilvægt skref í réttindabaráttu danslistamanna sem vonandi sitja bráðum við sama borð og aðrir sviðslistahöfundar. Stefnt er á að kynna samninginn fyrir félagsmönnum 7.deildar FÍL þegar nær dregur.

Monday, 18. January 2010

Dansmyndir

Helena Jónsdóttir mun halda fyrirlestur með þessum titli á þriðjudaginn 19. janúar 2010 kl. 21.00. Fyrirlesturinn er á vegum Íslenska dansfræðafélagsins.

Staður: Húsnæði sem Helena hefur til umráða og heitir Smiðjan, Sætúni 8. 2. hæð 105 Reykjavík.

Allir eru velkomnir á fyrirlesturinn þar sem Helena mun fjalla um reynslu sína af kvikmyndun á dansi og um vídeódans.

Saturday, 16. January 2010

Endurómun

Borgarleikhúsið kynnir stolt nýjan leikhúsmann til sögunnar, Leif Þorvaldsson sem útskrifaðist úr fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands síðast liðið vor. Útskriftarverk Leifs, Endurómun, kemur á fjalir Borgarleikhússins þann 13. og 14. janúar á Litla sviðinu, athugið aðeins þessar tvær sýningar.
Leikhúsáhugafólki gefst hér einstakt tækifæri á að sjá þetta metnaðarfulla verk sem færði höfundinum hæstu einkunn við útskrift.

Monday, 11. January 2010

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is