Dísablót

Íslenski dansflokkurinn frumsýnir á laugardaginn sýninguna Dísablót þar sem sýnd verða tvö ný dansverk; Verk nr. 1 og Pottþétt myrkur. Bæði verkin eru samin af íslenskum samtímadanshöfundum við nýja íslenska tónlist en nýsköpun í dansi og tónlist er það sem einkennir sýningarárið hjá Íslenska dansflokknum.

Friday, 16. November 2018

Elísabet Birta sýnir í inngangi S.M.A.K í Belgíu

Elísabet Birta Sveinsdóttir flytur gjörning á Etcetera VI í S.M.A.K í Gent, Belgíu fimmtudaginn 15. Nóvember. Viðburðurinn er skipulagður af teymi sem nefnist Ungir Vinir S.M.A.K og gengur út á að bjóða ungum og upprennandi listamönnum að sýna í inngangi safnsins.

Wednesday, 14. November 2018

400 umsækjendur um 4 stöður hjá dansflokknum.

Sunnudaginn 26. ágúst, var síðasti dagur lokaðra áheyrnaprufa sem Íslenski dansflokkurinn hélt hér í Reykjavík. Fyrr í sumar var dansflokkurinn með prufur í París og voru á 400 manns sem sóttu um að taka þátt í þessum tveimur prufum.

Dansflokkurinn bauð 100 áhugasömum dönsurum að þreyta prufurnar; 50 í París fyrr í sumar og 50 hér í Reykjavík nú um liðna helgi. Dansararnir komu hvaðanæva að úr heiminum en 5% umsækjenda eru frá Íslandi. Verið er að leita að 4 dönsurum, bæði karlkyns og kvenkyns, og á því Erna Ómarsdóttir, listdansstjóri Íslenska dansflokksins, strembið verk fyrir höndum við valið úr þessum glæsilega hópi dansara.

Frekari upplýsingar fást hjá Írisi Maríu Stefánsdóttur, markaðsstjóra Íslenska dansflokksins, í síma 6619591 eða í iris@id.is

Monday, 27. August 2018

Elísabet Birta Sveinsdóttir

Elísabet Birta Sveinsdóttir, dans- og myndlistarkona tekur þátt í samsýningu í Gent, Belgíu og sýnir ‘virtual’ gjörning á opnuninni föstudaginn 15. júní kl. 20 að íslenskum tíma. Hægt verður að fylgjast með gjörningnum í beinni á netinu bæði á facebook síðu In de Ruimte og instagram síðu Elísabetar Birtu.

Elísabet Birta verður með vídeóverk á sýningunni ‘About you’ sem mun standa í eina viku en gjörningurinn verður sýndur í beinni á opnuninni. Það verða fleiri gjörningar á samsýningunni og munu listamennirnir fremja þá á staðnum.

Gjörningurinn ‘Angels, On being on earth’ verður einskonar eins manns svefnherbergis tónleikar, eins manns partý með hundi, kind og uppstoppuðum ref.

Ég leitast við að skapa ástand sem á sér stað í kjarna tilverunnar, þegar ég leita sannleikans með með veruleikaflótta. Þá koma mögulega í ljós mín hinstu hjartans mál...

Hægt verður að fylgjast með gjörningnum á instagram reikning Elísabetar Birtu (slóð hér að neðan) og slóð á beinu útsendinguna á facebook verður einnig deilt á viðburðinn.

http://instagram.com/elisabetbirta

www.elisabetbirtasveinsdottir.com

Wednesday, 13. June 2018

Glamúr, kraftur og dansgleði hjá Íslenska dansflokknum

Íslenski dansflokkurinn frumsýnir Hin lánsömu á föstudaginn 27. Apríl, splunkunýtt dansverk eftir Grímuverðlaunahafann Anton Lachky.

Hin lánsömu er kraftmikil og kómísk saga 8 systkina sem lifa velmegunarlífi. Með því að fylgja settum reglum er þeim tryggt að líf þeirra sé hamingjuríkt og gæfusamt. Mundir þú fylgja hvaða reglu sem er ef það mundi tryggja hamingju þína og lánsemi? Sérstaklega ef ein reglan bannar þér að yfirgefa húsið þitt.

Thursday, 26. April 2018

Alþjóðlegi dansdagurinn 29.apríl Tjáningarformi dansins fagnað

Alþjóðlegi dansdagurinn er næstkomandi sunnudag en hann var stofnaður árið 1982 af dansdeild Alþjóðlegu leikhúsmálastofnunar UNESCO - ITI. Dagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert þann 29.apríl um heim allan. Dagsetningin er til minningar um fæðingardag Jean-Georges Noverre, sem fæddist árið 1727 en Noverre var mikill dansumbótasinni og hafði víðtæk áhrif á þróun danslistar í Evrópu á sínum tíma. Markmið Alþjóðlega dansdagsins er að yfirstíga pólitískar, menningarlegar og siðfræðilegar hindranir og færa fólk nær hvert öðru í friði og vináttu með sameinginlegu tungumáli – dansinum.

Thursday, 26. April 2018

EINSTAKLINGSVERKEFNI DANSARA 3.ÁR

Í þessu námskeiði vinna nemendur að sjálfstæðri uppsetningu fyrir svið. Nemandi velur sjálfur viðfangsefni og aðferð. Áhersla er lögð á að nemendur þrói eigin hugmyndir, vinni úr þeim og finni þá framsetningu sem best hæfir viðfangsefninu.

Afraksturinn verður sýndur í Tunglinu, Austurstræti 2a; Smiðjunni, Sölvhólsgötu 13 og Húrra dagana 1. til 4.03.

Hér má sjá dagskrána og þar fyrir neðan hvern viðburð fyrir sig.

Fimmtudagur 1.3.

PROGRAM A : Tunglið Selma and Ástrós 18:00 - 19:00

PROGRAM B : Smiðjan Erna, Pauline, Klavs 20:00 - 22:00

Föstudagur 2.3.

PROGRAM C Tunglið Yelena, Kari and Ástrós 20:00 - 21:30

Laugardagur 3.3.

PROGRAM B: Smiðjan Erna Klavs and Pauline 20:00 - 21:30

Sunnudagur 4.3.

PROGRAM D: Tunglið Kari and Yela 18:00 - 19:00

+ Selma Reynisdóttir at Húrra 20:30

Frítt inn en panta þarf miða á midisvidslist.is

Ath. miðpöntunum er aðeins sinnt á opnunartíma skrifstofu.

Thursday, 1. March 2018

Horfið

Gjörningurinn Horfið eftir Elísabetu Birtu Sveinsdóttur með tónlist í samstarfi við Ísabellu Katarínu Márusdóttur verður fluttur á Ráðstefnu í Ríga á Föstudaginn 2. mars 2018. Ráðstefnan ber titilinn: Practicing Communities: Transformative societal strategies of artistic research og er haldin í Zirgu Pasts, Latvian Academy of Culture

Thursday, 1. March 2018

Macho Man sýnir á Austurlandi

Dansverkið Macho Man flakkar um Austurland dagana 25.-28.október. Sýnt verður á Neskaupsstað, Eskifirði, Seyðisfirði og að lokum á Egilsstöðum.

Í dansverkinu „Macho man“ stígur Saga Sigurðardóttir dansari á svið og galdrar fram tvíræðan heim þar sem karlmannlegar hreyfingar eru nýttar til að skapa samhljóm á milli kvenkyns dansara og þess hreyfimynsturs sem við kennum við karlmennsku. Pungsveitt veröld mexíkóskrar glímu, rokkstjarna og líkamsræktarkappa í frumlegu og metnaðarfullu verki Katrínar Gunnarsdóttur danshöfundar.

Tuesday, 24. October 2017

SOLO Undankeppni Stora Daldansen

Sunnudaginn 15.október kl.16:00 í Klassíska Listdansskólanum Grensásvegi 14.

Sunnudaginn 15.október næstkomandi munu upprennandi dansarar spreyta í klassískum ballett í sal Klassíska Listdansskólans við Grensásveg. Um er að ræða undankeppni fyrir Stora Daldansen, norrænu einstaklingskeppnina í klassískum listdansi sem haldin verður í Falun í Svíþjóð dagana 27.-28. mars næstkomandi. Það er Félag íslenskra listdansara sem stendur fyrir undankeppninni hérlendis en styrktaraðilar eru dansverslun Arena Ármúla 34 og verslunin Ástund Austurveri.

Undankeppnin SOLO er mikil lyftistöng fyrir klassíska listdansinn hérlendis og er hún mikilvægur vettvangur fyrir íslenska listdansnema til þess að spreyta sig á krefjandi sólóhlutverkum klassískra ballettverka. Með keppninni vill Félag íslenskra listdansara skora á íslenska listdansnema og ýta undir áhuga á klassískum ballett. Þátttökurétt í undankeppnina hafa listdansnemar í öllum listdansskólum innan Félags íslenskra listdansara. 14 keppendur eru skráðir til leiks næstkomandi sunnudag. Gera má ráð fyrir spennandi og skemmtilegri keppni þar sem töfraljómi klassískra ballettverka fær að njóta sín.

Frítt er inn á viðburðinn sem að hefst kl 16.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir,góða skemmtun!

Kær kveðja frá stjórn FÍLD.

Wednesday, 11. October 2017

Félag íslenskra listdansara 70 ára

Íslensk listdanssena hefur sjaldan verið öflugri

Félag íslenskra listdansara var stofnað 27.mars árið 1947 en stofnun FÍLD markaði upphaf áralangrar baráttu og uppbyggingar á listgreininni hérlendis.

FÍLD stendur fyrir afmælisfögnuði í Dansverkstæðinu Skúlagötu 30, föstudaginn 31.mars. Boðið verður upp á hátíðardagskrá sem hefst með hátíðarskál kl.17 og heldur síðan áfram í formi DANSMARAÞONS frá kl.18 – 21. Aðgangur er ókeypis og eru allir dansarar og dansunnendur velkomnir.

Sunday, 26. March 2017

Samtímadansnemendur LHÍ

Samtímadansnemendur LHÍ safna fyrir námsferð til Ísrael á Karolina Fund

Frá stofnun Samtímadansbrautar LHÍ árið 2007 hafa fjölmargir erlendir kennarar komið til landsins og kennt við brautina auk þess sem nemendahópur brautarinnar kemur víðs vegar að. Alþjóðlegt umhverfi námsins felur í sér tækifæri og nýjar víddir fyrir nemendur og kennara skólans. Samtímadansnemendur Listaháskóla Íslands eru á leið í námsferð til Ísrael næsta janúar þar sem að þau munu komast í tengsl við danssenuna þar. Í Ísrael mun hópurinn sameinast kennurum sínum Emmu Rozgoni og Noam Carmelli og vinna dýpra inn í ferli sem byrjaði hér heima í ágúst 2016. Til að fjármagna ferðina eru þau nú að opna söfnunarsíðu hjá Karolina Fund og leita eftir stuðningi almennings. Hægt er að fylgjast með ferlinu þeirra inni á Facebook síðu hópsins, REAL Collective. Hópurinn stendur einnig fyrir viðburðinum, REAL Monday.

Nánar um verkefni hópsins má lesa á facebooksíðunni.

Sunday, 26. March 2017

Ballettsólókeppnin Stora Daldansen

Þrír nemendur Listdansskóla Íslands taka þátt í ballettsólókeppninni Stora Daldansen – Nordic Baltic Ballet Competition

Dagana 16.-18. mars er haldin Norræn- /Eystrasalts-ballettsólókeppni í Falun í Svíþjóð þar sem saman koma bestu nemendur þessara landa til að keppa í ballett.

Ísland hefur sent nemendur í þessa keppni um árabil og best náð þriðja sæti þegar Ellen Margrét Bæhrenz tók þátt árið 2010 og 2014 þegar Helga Krisín Ingólfsdóttir vann áhorfendaverðlaunin. Keppendur eru á bilinu 35-40 og þar á meðal nemendur sem hafa náð miklum árangri í keppnum sem þessum. Samkeppnin er því gríðarlega hörð um sætin 15 í úrslitum en hvernig sem fer þá er keppni sem þessi virkilega góð og dýrmæt reynsla fyrir þá nemendur sem fara út.

Tuesday, 14. March 2017

FÉLAG ÍSLENSKRA LISTDANSARA 70 ÁRA!

Afmælisfögnuður FÍLD föstudaginn 31.mars í DANSVERSKTÆÐINU

HÁTÍÐARSKÁL og DANSMARAÞON

Félagsmönnum og velunnurum íslenskrar danslistar er boðið í afmæli. Heiðrum starfsemi FÍLD og allt það góða fólk sem hefur komið að uppbyggingu danssenunnar á Íslandi.

Dagskrá

Hátíðarskál kl.17-18
Dansmaraþon kl.18–21

Vilt þú taka þátt í Dansmaraþoninu ?

DANSMARAÞONIÐ er opið öllum þeim sem vilja heiðra íslenskan listdans í tilefni tímamótana. Þátttakan er opin öllum, áhugasamir eru beðnir um að skrá sig í gegnum netfangið formadur@dance.is fyrir 24.mars. Hver þátttakandi hefur að hámarki 15 mínútur til umráða en annars er formið frjálst. Við hverjum alla til að skrá sig og gera þennan hátíðarviðburð sem eftirminnilegastan,atvinnudansarar, dansnemar, áhugamannadansarar, velunnarar íslenskrar danslistar og aðrir snillingar!

Hlökkum til að sjá sem flesta,
Hátíðarkveðja,
Stjórn FÍLD

Friday, 10. March 2017

VERA

VERA er nýtt dansverk eftir Unu Björgu Bjarnadóttur og er unnið í nánu samstarfi við tónlistarkonuna Sigrúnu Jónsdóttur - SiGRUN.
Vidjólistamenn eru Dagur Benedikt Reynisson og Þórunn Ylfa Brynjólfsdóttir.

Verkið hefur þá sérstöðu að vera spuni frá byrjun til enda; tónlistin, dansinn og vidjóið.

VERA er sýnt í Lækningaminjasafninu, á laugardaginn 25. febrúar og sunnudaginn 26. febrúar kl. 16:00.

Miðaverð er 2000 kr. en því miður er enginn posi á staðnum.
Börn og unglingar undir 16 ára fá frítt.

Friday, 24. February 2017

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is