Saga Sigurðardóttir

  • StaðaDansari, danshöfundur 
  • Netfangrassaga@gmail.com

Ágrip

Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík var Saga Sigurðardóttir meðal fyrstu nemenda sem útskrifuðust af nútímadansbraut Listdansskóla Íslands, árið 2003. Þá tók við starfsnámsár hjá Íslenska dansflokknum en sumarið 2006 lauk Saga svo danshöfundanámi frá ArtEZ Dansakademie í Hollandi og hefur síðan starfað sjálfstætt sem dansari og -höfundur með ýmsum listamönnum bæði hérlendis og víðar um Evrópu. Má þar m.a. nefna undangengið samstarf hennar við danslistakonurnar Alexöndru Bachzetsis (Zürich) og Anat Eisenberg (Ísrael/Berlín). Saga hefur einnig komið að kennslu við dansdeild Listaháskóla Íslands, Lístdansskóla Íslands og Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar á Ísafirði.

Hérlendis hefur Saga m.a. unnið með danshöfundunum Sveinbjörgu Þórhallsdóttur í verkunum "Saga" í Þjóðleikhúsinu og "Red Lilies" í Hafnarfjarðarleikhúsinu, og Láru Stefánsdóttur í verkum hennar "Lúna", "Von" og "G.Duo".

Saga er annar helmingur sviðslistakompanísins saga&magga sem hún stofnaði ásamt Margréti Bjarnadóttur haustið 2006. Meðal verka þeirra eru samsýningin "Víkingar & gyðingar" sem sett var upp í Hafnarfjarðarleikhúsinu í samstarfi við ísraelsku danslistamennina Anat Eisenberg og Noa Shadur árið 2007. "Kökur" fluttu þær í Þjóðleikhúsinu sama vetur, "Sgwímsli" á Reykjavik Dance Festival 2007 og á Reykjavik Dance Festival 2009 frumsýndu þær PRETTY BASSIC -sviðsett hljóðverk unnið í samstarfi við tónlistarmanninn Úlf Hansson. Sögu&möggu var einnig boðið að leiða námskeið og koma fram á danshátíðinni BodyWord í St. Pétursborg vorið 2009.

Ásamt Margréti Bjarnadóttur tók Saga við Grímuverðlaununum "danshöfundur ársins 2009" fyrir sýninguna Húmanímal eftir leikhópinn Ég og vinir mínir. 

Árið 2007 hlaut Saga fyrstu verðlaun sem danshöfundur á "7th International Solo&Duo Festival" í Búdapest.

Sem stendur vinnur Saga að nýrri uppfærslu, "Bluff", með danshöfundinum Alexandra Bachzetsis sem frumsýnd verður í Theaterhaus Gessner Allee í Zurich í nóvember komandi.

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is