Anna Kolfinna Kuran

  • StaðaDansari, danshöfundur 
  • Netfangannakolfinna@gmail.com

Ágrip

Anna Kolfinna Kuran er sjálfstætt starfandi dansari og danshöfundur. Hún útskrifaðist með BA- gráðu af samtímadansbraut Listaháskóla Íslands árið 2013. Eftir útskrift hefur hún unnið að ýmsum verkefnum í samstarfi við aðra eða að sólóverkefnum bæði sem höfundur og flytjandi.Verk hennar taka á sig ólíkar myndir þar sem flæði milli miðla, greina og aðferða er greinilegt, megin áherslan liggur þó í því sjónræna og líkamlega. Gegnumgangandi þemu í verkum hennar eru að rannsaka viðfangsefni sem við koma líkama konunnar og samtíma femínisma.

Anna Kolfinna er meðal stofnenda sviðslistahópanna Dætur og Kraftverk sem unnið hafa að ýmsum sýningum síðustu ár. Dætur sýndu verk í vinnslu á Reykjavík Dance Festival 2013 og gjörning á myndlisthátíðinni Sequences árið 2015. Kraftverk sýndi verk í vinnslu á Dansverkstæðinu vorið 2015 og einnig verkið Kraftverk gerir Helgileik í Mengi í desember 2015. Anna Kolfinna samdi og sýndi verkið Bríet á Reykjavík Dance Festival árið 2015, en verkefnið var unnið í samstarfi við hátíðarhöld vegna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi.

Undanfarin tvö ár hefur Anna Kolfinna einblínt á persónulegt verkefni sem ber titilinn Konulandslag þar sem hún rannsakar tengsl milli kynja og rýmis. Verkefnið er marglaga listræn og fræðileg rannsókn þar sem hún skoðar hvernig kynjahlutverk hafa áhrif á rýmisnotkun og líkamsbeytingu/hversdags kóreógrafíu, valdbeytingu og líkamleg samskipti fólks. Anna Kolfinna hefur unnið ótal verk út frá þessu rannsóknarefni þar sem hún notar kóreógrafíu sem afl og rannsóknartæki inní mismunandi umhverfum. Að hennar mati er kóreógrafía til staðar þar sem fólk og líkamar mætast og hana er hægt að virkja, trufla og nota sem pólitískt afl með því að nota líkamann sem tæki og miðil. Til dæmis með því að staðsetja (kven)líkamann inní rými þar sem hann er ekki velkominn, eða með því að trufla flæði líkama í almenningsrýmum með ofurhægum hreyfingum sem fara á móti straumnum. Í þessum tilraunum veltur Anna Kolfinna upp spurningum um kvenlíkamann og vægi hans inní mismunandi rýmum.

Auk þessa verkefnis hefur Anna Kolfinna einnig fengist við samstarfsverkefni við aðra listamenn, þar á meðal kom hún fram sem flytjandi í verkinu Atómsstjarna sem sýnt var í Ásmundarsal á Listahátíð 2018 og samdi verkið Allar mínar systur fyrir ungmennadansflokkinn Forward Youth Company sem sýnt var á hátíðinni Únglingurinn í Hafnarhúsinu 2018. Hún hefur einnig staðið að skipulagningu viðburða sem tengjast danssmíðum hérlendis, svo sem Seríu og Choreo-Talks í Mengi ásamt því að leiða feminíska balletttíma fyrir fólk öllum aldri í Kramhúsinu auk annarar danskennslu við ýmsa skóla í Reykjavík. Vorið 2017 lauk hún fræðilegu meistaranámi við NYU í performance fræðum (e. performance studies).

 

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is