Ársskýrsla 2013

Ársskýrsla FÍLD starfsárið 2013-2014

Stjórn FÍLD skipa:
Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, formaður
Katrín Ingvadóttir, ritari
Tinna Grétarsdóttir, gjaldkeri
Hjördís Lilja Ingvadóttir, meðstjórnandi
Hrafnhildur Einarsdóttir, meðstjórnandi 
Varamenn stjórnar: Katrín Gunnarsdóttir og Valgerður Rúnarsdóttir

FÍLD á fulltrúa í eftirtöldum stofnunum:
Bandalag Íslenskra Listamanna: Melkorka Sigríður Magnúsdóttir
Íslenski Dansflokkurinn: Marta Nordal (Varamaður: Stefán Jónsson)
Launasjóður sviðslistamanna: Karen María Jónsdóttir
Úthlutunarnefnd leiklistarráðs: Aino Freyja Jarvela
Leiklistarsamband Íslands: Katrín Ingvadóttir
Fulltrúaráð Listahátíðar í Reykjavík: Melkorka Sigríður Magnúsdóttir
Gríman - Íslensku Leiklistarverðlaunin: Tveir leynilegir fulltrúar

Aðalfundur FÍLD var haldinn í byrjun febrúar 2012 og þar kvöddu þrír stjórnarmenn, Guðmundur Helgason formaður, Elva Rut Guðlaugsdóttir ritari og Ásgeir Helgi Magnússon, eftir langt og óeigingjarnt starf í þágu FÍLD. Núverandi stjórn þakkar kærlega fyrir störf þeirra í þágu félagsins og býður jafnframt velkomna nýja stjórnarmeðlimi, Melkorku Sigríði Magnúsdóttur formann, Katrínu Ingvadóttur ritara og Hjördísi Lilju Örnólfsdóttur meðstjórnanda. Auk þeirra kom Valgerður Rúnarsdóttir fersk inn sem varamaður, en hún ásamt Katrínu Gunnarsdóttur hafa séð um að mæta á fundi í fjarveru einstakra stjórnarmeðlima.

Stjórn FÍLD hefur haldið átta stjórnarfundi frá síðasta aðalfundi, að jafnaði með eins mánaðar millibili. Utan þess hefur stjórn hist á vinnufundum, til að móta stefnu stjórnar og vinna ítarlegar í einstökum málum. Að auki fer mikið af samskiptum og umræðum stjórnar fram í gegnum facebook hóp þar sem hún skiptist á upplýsingum og hugmyndum milli funda. Þá sækja stjórnarmenn, þó mest formaður, aðra fundi í nafni félagsins, s.s. hjá Bandalagi Íslenskra Listamanna og Leiklistarsambandi Íslands. Öll verkefni FÍLD eru unnin í sjálfboðaliðavinnu og leggur stjórnin mikið á sig til að verkefnin fái sem jákvæðasta umfjöllun út á við og séu faglega unnin inn á við. Það eru mörg verkefnin sem stjórnin hefur tekið sér fyrir hendur á árinu. Hér verður gerð tæpt á því helsta sem FÍLD hefur komið að síðustu mánuði.

FÍLD og skólarnir FÍLD hefur barist ötullega fyrir auknu fjármagni inn í Listdansskólana í vetur en það mál hefur verið eitt af aðalbaráttumálum félagsins. Formaður hefur talað máli skólanna á samráðsfundum með menntamálaráðherra og borgarstjóra og lýst yfir mikilvægi þess að styðja við bakið á þeim fáu en góðu Listdansskólum sem starfandi eru hér á landi. Í september kom út ný og glæsileg skýrsla eftir heilsuhagfræðinginn og danshöfundinn Katrínu Gunnarsdóttur sem ber heitið “Listdansskólar á Íslandi, staða, umfang og framtíðarmöguleikar”. Skýrslunni var dreift á þingmenn og ráðherra, ásamt skólastjórum og sveitarfulltrúum og fékk hvarvetna góð viðbrögð. Skýrslan var jafnframt kynnt fyrir skólastjórum Listdansskólanna en stjórn FÍLD bauð þeim í kaffiboð og power point á dansverkstæðinu þar sem afraksturinn var sýndur. Kallað hefur verið eftir samtali við FÍLD frá borgaryfirvöldum og menntamálaráðuneyti til að fá innsýn inn í okkar framtíðarsýn vegna útkomu skýrslunnar, og nú á vorönn mun það samtal hefjast.

Í vinnslu er önnur skýrsla um rekstrarumhverfi Listdansskólanna sem áætlað er að komi út í lok janúar. Báðar þessar skýrslur eru mikilvægt vopn í höndum FÍLD í komandi samningarviðræðum gagnvart ríki og sveitarfélögum, en ætlunin er að kynna þær á fundum með menntamálaráðherra og skóla og frístundasviði á vorönn. Vinnuhóp um málefni listdansskóla skipa formaður FÍLD, Katrín Gunnarsdóttir og Katrín Ingvadóttir.

FÍLD heldur ennþá utan um SOLO, undankeppni fyrir Stora Daldansen, klassíska danskeppni sem haldin er í Svíþjóð ár hvert. Í ár var ákveðið að fá utanaðkomandi aðila til að aðstoða við undirbúning keppninar og dreifa þannig ábyrgð milli stjórnar og skólanna. Solo verður haldin í Austurbæ í febrúar.

FÍLD og BHM Snemma á vorönn ákvað stjórn FÍLD að sækja um aðild að Bandalagi Háskólamanna en bæði FÍL og FLÍ eru aðildarfélög að BHM. Helsta skilyrði fyrir inntöku í félagið er að meirihluti félagsmanna sé með BA próf eða sambærilega menntun. Stjórnin lagðist því í yfirgripsmikla rannsókn á menntun félagsmanna og skemmst er frá því að segja að mikill meirihluti dansara og danshöfunda er með BA próf og nánast öll nýmyndun í faginu byggir á slíku prófi. FÍLD hélt félagsfund í byrjun nóvember til að fá óformleg viðbrögð félagsmanna við lagabreytingum það var tekið vel í það. FÍLD sendi inn glæsilega umsókn til BHM í nóvember, með þeim fyrirvara að aðalfundur félagsins ætti eftir að gefa samþykki. Stjórn BHM hefur farið yfir umsóknina og staðfest að hún uppfylli öll skilyrði. Umsókn FÍLD í BHM verður því lögð fyrir aðalfund þeirra í maí.

FÍLD og viðmiðunartölur Formaður FÍLD gerði heiðarlega tilraun til að hefja kjarasamningsviðræður við Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið. Málið reyndist hins vegar örlítið flóknara en svo þrátt fyrir að vilji væri fyrir því hjá báðum leikhúsum. Kjara og mannauðssýsla ríkisins, sem annast verkefni samninganefndar ríkisins sá ekki ástæðu til að gera samning við FÍLD og benti á að eðlilegast væri að félagið gengi inn í almennt stéttarfélag sem spannar mörg starfsheiti og hefur víðtækan samningsrétt. Verði umsókn FÍLD til BHM samþykkt verður samningsviðræðum haldið áfram á næsta starfsári.

Listamannalaun Vegna yfirvofandi niðurskurðar á fjárlögum í styrkjum til listgreina bað stjórn FÍLD stjórn listamannalauna um að taka saman tölur hvað varðar útdeilingu á launum til þeirra listamanna sem fá úthlutað úr sviðslistasjóði. Markmiðið er að skoða hversu mörg laun fara til sviðslistafólks og hversu mörg útdeilast á aðra listamenn sem að sviðslistaverkefnum koma, s.s. tónlistarmenn og hönnuði. Niðurstöður munu liggja fyrir í janúar.

Samráðsfundir Formaður sótti samráðsfundi BÍL með menntamálaráðherra annars vegar og borgarstjóra hins vegar. Þar hélt hún varnarræðu fyrir listdansinn og talaði fyrir nauðsyn þess að viðhaldra góðri dansmenntun hér á landi. Listdansskólarnir þurfa fjárhagslega aðstoð og enn sem komið er styðja sveitarfélögin ekki við grunnskóladeildir dansskóla líkt og þau gera hjá tónlistarskólunum. Formaður talaði jafnframt fyrir mikilvægi þess að dansara fengju sitt eigið Danshús, að styðja þyrfti við bakið á nýútskrifuðum dönsurum og hlúa að dansinum til frambúðar.

Menningarumfjöllun Í vetur var skorið niður í menningarumfjöllun Fréttablaðsins og FÍLD mótmælti því harðlega. Formaður gerði ristjórn blaðsins grein fyrir uppgangi listdansins hérlendis sem og erlendis og þeirri staðreynd að oft væru dómar og umfjallanir blaðsins, eina heimildin sem stæði eftir að sýningum lokinni. Það að gagnrýna ekki listdans í stærsta prentmiðli landsins hefði svo sannarlega áhrif á aðsókn að danssýningum. Fréttablaðið hefur tekið sig á og birt nokkra dóma um Íslenska Dansflokkinn, en nauðsynlegt er fyrir sjálfstæða geirann að standa saman og senda fréttir og fréttatilkynningar á blöðin og láta jafnframt gagnrýnendur vita af sýningum!

BÍL fékk dagskrárstjóra RÚV í kaffi í maí, þar talaði formaður FÍLD fyrir mikilvægi faglegrar menningarumfjöllunar um dans í menningarþáttum líkt og Djöflaeyjunni, en þakkaði jafnframt fyrir þáttinn Dans, dans, dans sem vakti mikla athygli á danslistinni um land allt.

Vinnuhópur um danshús Stjórn FÍLD skipaði Tinnu Grétarsdóttur, Ásgeir Helga Magnússon og Valgerði Rúnarsdóttur í vinnuteymi um málefni danshúss í vetur. Hlutverk hópsins er að hitta borgarstjóra/menningar og ferðamálaráð og menntamálaráðherra og afhenda skýrslu um danshús og dansstefnuna. Hópurinn átti jafnframt að tala fyrir nauðsyn þess að dansarar fái sitt eigið sýningar og æfingahúsnæði sem tryggi sýnileika og auki aðgengi listdansins. Verkefnið er samstarfsverkefni FÍLD og Dansverkstæðisins.

Sviðslistafrumvarp Fyrir tveimur árum bárust fagfélögum sviðslista beiðni frá mennta og menningarmálaráðuneytinu sem varðaði nýtt frumvarp til sviðslistalaga. Skemst er frá því að segja að vinnsla við frumvarpið tafðist vegna athugasemda og viðamikilla breytingatillaga frá sviðslistageiranum og ekki náðist að klára það fyrir kosningar. Við vonumst til að frumvarpið lendi ekki ofan í skúffu til lengdar og að hægt verði að taka upp þráðinn á nýju ári.

Alþjóðlegi Dansdagurinn var haldinn hátíðlegur hér á landi sem og erlendis. FÍLD bauð uppá fjölbreytta dagskrá á dansverkstæðinu þar sem Choreography Reykjavík stóð fyrir hinu sívinsæla Lunch Beat-i og Aude Busson bauð upp á Dans-ÆÐI fyrir yngstu kynslóðina. Baráttuávarp formanns í tilefni dagsins var birt hvarvetna í netheimum og deginum lauk með rauðvínsboði fyrir dansara.

FÍLD og Gríman Á almennum fundi sem boðað var til í sumarlok kom fram mikil óánægja nokkurra danshöfunda greiðslur á þátttökugjöldum til Grímuverðlaunanna sem nú eru á bilinu 15.000-25.000 kr . Stuttu síðar hélt Leiklistarsambandið fund um Grímuna og þar tók Sigríður Soffía Níelsdóttir til máls og lýsti sínum veruleika sem framleiðanda margra dansverka á ári. Danshöfundar á Íslandi hafa verið afkastamiklir síðustu ár og eru alltaf einhverjir að setja upp verk með lítið sem ekkert fjármagn. Í stjórn FÍLD hefur verið rædd sú hugmynd að styrkja þessi verk til þáttöku í Grímunni til að öll íslensk dansverk komi til greina þegar valið er besta verk ársins. Stjórn FÍLD mun leita til Leiklistarsambandsins á komandi ári til samvinnu um hvernig best sé að styðja við bakið á sjálfstæða geiranum þegar kemur að Grímunni.

Fréttaveita FÍLD FÍLD hefur haldið úti öflugri fréttaveitu í vetur bæði í gegnum heimasíðuna og facebook síðu félagsins. Stjórnin endurvakti jafnframt fréttabréfið, en það er sent út til félagsmanna á tveggja mánaða fresti með fréttum, viðburðum og því sem í gangi er hverju sinni. Hversu vel tekst til veltur hins vegar alfarið á því hversu duglegir félagsmenn eru að senda inn fréttir. Stjórn FÍLD heldur áfram að hvetja alla sem einn til að senda inn grein! Vefstjórinn okkar, hún Guðrún Óskarsdóttir er að hætta eftir að hafa séð um og sett upp heimasíðuna okkar frá upphafi. Við kveðjum hana og þökkum kærlega fyrir samstarfið og bjóðum jafnframt nýjan vefstjóra, Söndru Ómarsdóttur, velkomna.

FÍLD og Aerowaves Steinunn Ketilsdóttir danshöfundur fór sem fulltrúi Íslands með stuðningi FÍLD á fund Aerowaves dansnetsins sem að þessu sinni var haldinn í Póllandi. Það er íslenskum dansheimi mjög mikilvægt að geta tengst þessu tengslaneti en eina helgi á ári hittast u.þ.b. 30 einstaklingar, einn frá hverju landi Evrópu og skoða brot úr 3400 verkum ungra og upprennandi danshöfunda frá gjörvallri Evrópu og kynnast þannig því ferskasta í evrópskri danslist. Þáttaka í Aerowaves hefur verið mikilvægur liður í því að vekja athygli á íslenskum dansi og hafa verk margra íslenskra danshöfunda hlotið brautargengi í gegnum tengslanetið. Að þessu sinni voru tvö íslensk verk valin í forgangshópinn sem hlýtur að teljast glæsilegur árangur.

F.H stjórnar FÍLD Melkorka Sigríður Magnúsdóttir - Formaður

Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is