Ársskýrsla 2009

Í stjórn FÍLD sitja:

Karen María Jónsdóttir, formaður
Irma Gunnarsdóttir, meðstjórnandi
Ásta Björnsdóttir, meðstjórnandi
Steinunn Ketilsdóttir, ritari
Guðrún Óskarsdóttir, gjaldkeri
Ásgerður G. Gunnarsdóttir í fjarveru gjaldkera

Félagar FÍLD í lok árs 2009 eru 80

FÍLD er aðild að eða á fulltrúa í eftirfarandi stjórnum eða ráðum menningarstofnanna eða félagasamtaka:

Íslenska dansflokknum, Hany Hadaya
Listahátíð í Reykjavík, Karen María Jónsdóttir
Úthlutunarnefnd Launasjóðs sviðslistamanna, Ingibjörg Björnsdóttir
Leikminjasafni Íslands, Ingibjörg Björnsdóttir
Leiklistarsambandinu, Irma Gunnarsdóttir
Bandalag Íslenskra Listamanna, Karen María Jónsdóttir

Stjórn hefur unnið að tæplega 30 verkefnum á starfsárinu. Öll verkefni félagsins eru unnin í ólaunaðri vinnu og leggur stjórn mikið á sig til þess að þau séu unnin faglega og verði öll að veruleika. Verkefnin eru eftirfarandi:

FÍLD

 • Á samráðsfundi menntamálaráðuneytisins og Bandalags Íslenska Listamanna síðastliðið vor hélt Irma Gunnarsdóttir mikla varnarræðu fyrir listdansinn en á þeirri stundu var fyrsti niðurskurðurinn í undirbúningi í þeirri hrinu sem yfirvofandi er. Irma fékk fullan stuðning BÍL fyrir málflutningi sínum og hafði hann þau áhrif að listdanssamfélaginu þ.e. skólunum og Íslenska dansflokkinum var hlíft að mestu leiti. Miklu meira en margar aðrar listgreinar.
 • Alþjóðadansdagurinn var haldinn hátíðlegur þann 29. apríl. Skólarnir tóku þátt í dagskrá sem FÍLD skipulagði í Kringlunni og Ráðhúsi Reykjavikur. Auk þess sem leik- og grunnskólar í landinu voru hvattir til þess að halda daginn hátíðlegan og hvetja nemendur til dans. Undirtektirnar voru mjög góðar.
 • FÍLD opnaði nýja vefsíðu í September, Dansgáttina, en henni er ætlað að vera upplýsingasíða um íslenskan listdans fyrir íslenska og erlenda aðila. Bar Guðrún Óskarsdóttir hitan og þungann við gerð hennar og er í dag vefstjóri. Miklu efni var safnað frá aðildarfélögum til þess að gera hana sem best úr garði og gefst hverjum félaga kostur á eigin prófílvefsíðu í gegnum gáttina. Enn vantar upp á að við getum opnað enska hluta síðunnar og hvetjum við félaga FÍLD til þess að senda inn efni á ensku svo svo geti orðið. Einnig hvetjum við aðildarfélaga til að vera duglegir að senda inn fréttatilkynningar til þess að setja á síðuna.
 • FÍLD stofnaði til Facebook síðu í vikunni. Vinir FÍLD eru þegar orðnir tæplega 700 talsins úr öllum geirum þjóðfélagsins. Þær fréttatilkynningar sem berast FÍLD verða allar tengdar inn á Facebook en þar með viljum við auka sýnileika danssamfélagins og alls þess sem þar fer fram. Hvetjum við félaga okkar því enn og aftur til þess að senda inn fréttatilkynningar. En einnig til þess að bjóða öllum sínum vinum til þess að verða vinur síðunnar. Með mörgþúsund manna póstlista verður sýnileiki okkar allra meir og samfélag okkar sterkara
 • FÍLD vinnur þessa stundina að uppsetningu fréttabréfs sem sent verður á póstlista FÍLD. Unnið verður ensk útgáfa að bréfinu sem send verður á erlenda hagsmunaaðila. Hversu vel til tekst hér veltur á því hversu duglegir félagsmenn verða að senda inn fréttir til þess að setja í bréfið.
 • FÍLD hélt opinn félagsfund tvær helgar í röð í október þar sem í boði var aðstoð fyrir aðildarfélaga við gerð umsókna og fjárhagsáætlanna fyrir leiklistarráð. Veitt var ráðgjöf bæði á fundinum sjálfum og í gegnum netið.
 • FÍLD var gert að tilnefna tvo aðila í stjórn Íslenska dansflokksins á árinu, eina konu þ.e. Önnu Norðdal og einn karl þ.e. Hany Hadaya. Menntamálaráðuneytið skipaði svo Hany endanlega í stjórn dansflokksins. Skringilega var staðið að skipun nýrrar stjórnar þar sem fyrrverandi stjórn hafði ekki hugmynd um að hún hefði verið sett af. FÍLD hefur ekki enn verið tilkynnt um hvor fulltrúinn var valinn af hálfu Menntamálaráðuneytisins, við fréttum af því frá fyrrum fulltrúa FÍLD í stjórn ÍD.
 • FÍLD mótmælti harðlega niðurstöðu leiklistaráðs í síðustu úthlutun en aðeins eitt dansverkefni hlaut brautargengi í ráðinu. Ýmis rök, bæði tölfræðileg og fagleg voru notuð til þess að opna augu ráðsins fyrir því ójafnvægi sem innbyggt er í kerfið sem stuðst er við og er þess valdandi að danslistin fær “restarnar” af öllu fjármagni en er ekki metið á eigin forsendum. Einnig voru fjölmörg bréf send til skrifstofustjóra menningarmála menntamálaráðuneytisins og sérfræðinga þar á bæ. Bíðum við spennt eftir að sjá úthlutanir í ár Opinbert fjármagn:
 • Erfið staða var komin upp í haust þegar ljóst var að blaðafjölmiðlar höfðu enga gagnrýnendur fyrir dans á sínum snærum. FÍLD vann fyrst með Mogganum að því að finna hæfa einstaklinga til þessa starfs. Nýlega hefur FÍLD einnig bent Fréttablaðinu á nokkra einstaklinga og vonumst við til þess að Fréttablaðið hefji gagnrýni á listdansi á ný innan skamms.
 • Ingibjörg Björnsdóttir skrifar áfram sögu Listdansins. FÍLD skipaði á sínum tíma litla nefnd sem átti að aðstoða við gerð umsókna en mikilvægt var að finna fjármagn til þess að kosta rannsóknarvinnu fyrir bókina og skrif hennar. Einhverjir styrkir hafa nú fengist sem er mikið gleðiefni.
 • FÍLD hefur hafið undirbúningur fyrir gerð menningarstefnu listdansins. Katrín Dagmar Beck hefur verið ráðin verkefnastjóri og Sólveig Ólafsdóttir ráðgjafi en hún leiddi gerð menningarstefnu Reykjavíkurborgar á síðasta ári. Fyrstu fundir haldnir í apríl og hlökkum við til þess að vinna að gerð þessarar stefnu með okkar félagsmönnum. Stefnt er að því að kynna hana á Keðju-Reykjavík í Október.
 • FÍLD hóf umræður við DV um að listdansinn yrði hluti af menningarverðlaunum blaðsins eins og aðrar listgreinar. Biðstaða var á viðræðum vegna barneigna á blaðinu en viðræður munu hefjast á ný nú í vor.

FÍLD og skólarnir

 • FÍLD hefur beðið um fund hjá skrifstofu menntamála menntamálaráðuneytisins til þess að ræða málefni listdansskólanna þ.e. fjármögnun þeirra. Þrátt fyrir að fjögur ár séu liðin frá því að aðalnámskrá var gefin út og fjármögnunarkerfið opnað til þess að gera fleiri skólum kleift að byggja upp starf sitt þá er enn mikla mismunun að finna í styrkjum til þeirra. Það stangast á við öll fyrirheit menntamálaráðuneytisins á sínum tíma og skapar óþolandi ástand sem bitnar aðeins á því starfi sem verið er að byggja upp. FÍLD mun beita sér áfram og leggja sitt af mörkum til þess að rétta ástandið við.
 • Undankeppni fyrir Stora Daldansen var haldin í Íslensku Óperunni. 3 keppendur voru valdir sem fulltrúar Íslands og komu tveir frá Listdansskóla Íslands og einn frá Klassíska Listdansskólanum. Veitt í annað sinn úr minningarsjóði Svandísar Þulu sem lést í bílslysi aðeins 5 ára gömul. Svandís hafði stundað nám við Ballettskóla Eddu Scheving í 2. ár áður en hún lést.
 • Undirbúningur hófst fyrir stofnun nýrrar keppni KORUS en henni er ætlað að hvetja nemendur listdansskólanna til skapandi danssmíða. Keppnin hefur nú verið auglýst innan allra listdansskóla sem aðild eiga að FÍLD og væntum við þess að þar muni flest allir skólar landsins sameinast núna seinna í vor.
 • Danskortið var gefið út fyrir dansskólaumhverfið en kortið er sameiningartákn skólanna. Danskortið veitir veglega afslætti á sýningar menningarstofnanna landsins, á dansfatnað og viðburði FÍLD.
 • FÍLD beitir sér fyrir stofnun Meistaranáms í listkennslu við LHÍ. Við stofnun listkennsludeildar skólans hafi gleymst að gera ráð fyrir listdansinum. Eftir að vildarvinur dansins hafði bent forsvarsmönnum FÍLD á það tók FÍLD málið í sínar hendur og sendi rectors Listaháskólans bréf með ítarlegum rökstuðning. Eftir samtal við hlutaðeigandi aðila var loksins tekin ákvörðun um að listdansinn fengi inn í listkennsludeild eins og aðrar listgreinar. Einn dansari hóf nám í haust í nýju meistaranámi.

FÍLD og samstarf við önnur félagasamtök:

 • FÍLD leiddi á árinu hóp sviðslistamanna sem barðist fyrir stofnun launasjóðs sviðslistamanna. FÍLD vann alla rannsóknarvinnu og setti upp tölfræðilegan og faglegan rökstuðning í formi skýrslu sem lögð var fyrir skrifstofustjóra menntamálaráðuneytisins, menntamálaráðherra, sérfræðinga ráðuneytisins, stjórn listamannalauna og önnur fag- og stéttarfélög listamanna. Baráttan um þennan sjóð var gífurlega hörð og kom þar mest á óvart andstaða annarra listgreina. Önnur sviðslistafélög stóðu þétt við bakið á FÍLD-urum og að lokum var ákvæði um stofnun sjóðsins lögð fram í nýju frumvarpi á alþingi og samþykkt. Í fyrsta sinn í sögunni eiga listdansarar nú sinn faglega fulltrúa í launasjóði listamanna.
 • FÍLD skipulagði í samstarfi við Leiklistarsambandið fund í Nýlistasafninu. Fundurinn var hluti af fundarröð sviðslistageirans á leiklistarþingi LSÍ og bar heitið: Hlutverk danslistamannsins í reyttu samfélagi. Frummælendur voru: Ingibjörg Björnsdóttir, Lára Stefánsdóttir, Helena Jónsdóttir og Katrín Gunnarsdóttir.
 • Fundur var haldinn í samvinnu við Sjálfstæðu Leikhúsin og Leiklistarráð þar sem danslistamönnum gafst kostur á að tala við tala við fulltrúa SL í Leiklistarráði og fá upplýsingar um tilhögun sjóðsins og vinnureglur hans. Fundurinn var mjög vel sóttur af dönsurum og voru þeir duglegir við að skýra stöðu dansara út fyrir fulltrúa ráðsins.
 • FÍLD stóð fyrir söfnun á áhorfendatölum fyrir Sjálfstæðu leikhúsin og Hagstofu Íslands. Þrátt fyrir mikilvægi þessara talna fyrir dansgeirann gekk mjög erfiðlega að safna þeim saman og fólk trekt við að gefa sér tíma til þess að skila þeim inn á réttum tíma. Þetta hefur í tvígang haft þær afleiðingar að tölum er skilað of seint og því fara rangar upplýsingar um starfsemi danslistamanna í gagnagrunn Hagstofu Íslands.

Áhorfendatölur fyrir dansárið 2008-2009 eru eftirfarandi:
Fjöldi uppsetninga innanlands 18 - áhorfendafjöldi 13.841
Fjöldi uppsetninga erlendis 3 - áhorfendafjöldi 3.450
Fjöldi uppsetninga 5 - áhorfendafjöldi 517
Fjöldi uppsetninga eingöngu sýndum erlendis 20 - áhorfendafjöldi 13.801
Samtals 31.609

 • FÍLD skrifaði ásamt Reykjavík Dance Festival og Sjálfstæðu Leikhúsunum bréf til leiklistarsambandsins þar sem farið var þess á leit að Leiklistarsambandið veitti dansgeirann styrk til þess að fjármagna fulltrúa á Aerowave. Var svarið jákvætt og hefur því nú fast fjármagn fengist til framtíðar. Er það mikið fagnaðarefni.
 • Irma Gunnarsdóttir leiddi verkefnið Litróf Listanna fyrir BÍL. Þar voru mismunandi listgreinar leiddar saman og kynntar fyrir grunnskólum, dansinn fékk þar rúmt hlutverk.
 • Helgi Tómasson var hylltur á Grímunni – leiklsitarverðlaunahátíðinni. FÍLD aðstoðaði við skipulagningu viðburðarins sem var mjög eftirminnilegur og sviðslistasamfélaginu til mikils sóma en á sviðið voru leiddar margar kynslóðir danslistamanna úr öllum áttum.
 • FÍLD átti sinn fulltrúar í gerð fyrstu menningarstefnu stjórnvalda á Íslandi. Skipaði stjórnin Helenu Jónsdóttur sem fulltrúa sinn og fól henni að finna sem flestum verkefnum félagsins brautargengi í nýrri framtíðarstefnu stjórnvalda. Spennandi verður að sjá hver útkoman verður og hver framtíðarstaða listdansins verður í stefnunni við hlið annarra listgreina.
Félag íslenskra listdansara dance@dance.is www.dance.is